Innlent

Gæti orðið stærsti vinnustaður landsins innan tveggja ára

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. vísir/anton brink.
Keflavíkurflugvöllur verður stærsti vinnustaður landsins innan tveggja ára ef spár ganga eftir. Farþegum kemur til með að fjölga hratt næstu árin og er gert ráð fyrir að þeir verði orðnir 20 milljónir árið 2040 og að þar starfi 16 þúsund manns.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Isavia, sem rekur Keflavíkurflugvöll, birti í dag. Farþegum um Keflavíkurflugvöll hefur fjölgað hratt síðustu árin. Fyrir um þrjátíu árum fóru um 500.000 manns um flugvöllinn á ári. Á þessu ári eru farþegarnir þegar orðnir fleiri en fimm milljónir. Isavia gerir ráð fyrir að farþegum haldi áfram að fjölga hratt og verði orðnir um tuttugu milljónir árið 2040. Búist er við að nærri helmingur þeirra verði skiptifarþegar. Það eru farþegar sem millilenda á Íslandi en flestir eru þeir að fara á milli Norður-Ameríku og Evrópu. Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, segir fjölmörg tækifæri flesta í þessu. Sá möguleiki sé til staðaðr að Keflavíkurflugvöllur geti orðið samgöngumiðstöð á milli heimsálfa.

Þá er fjallað um það í skýrslunni hversu hratt störfum á flugvellinum hefur fjölgað síðustu ár. Í dag starfa um sex þúsund manns á flugvellinum. „Þá erum við að tala um bara flugfélögin, flugvirkjar, flugmenn, flugumferðarstjórar, flugafgreiðslumenn, starfsmenn í verslun og veitingum og þess háttar,“ segir Elín.

Gert er ráð fyrir að Keflavíkurflugvöllur verði orðinn stærsti vinnustaður landsins árið 2018 ef farþegaspáin rætist. Þá starfi þar um sjö þúsund og fimm hundruð manns. Störfunum heldur svo áfram að fjölga. „Í lok spátímabilsins sem við erum að tala um þá erum við að tala um að þetta verði um 16 þúsund störf sem að flugvöllurinn er að búa til,“ segir Elín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×