Skoðun

Fyrsta fasteignin eða hvað

Pétur Sigurðsson skrifar
Enn einu sinni er verið að hringla með aðstoð eða ekki aðstoð við kaupendur sem eru að kaupa fyrstu fasteign sína á Íslandi. Sumir halda því fram að nýju tillögurnar séu til þess gerðar að hygla sumum en öðrum ekki. Því er haldið fram að nýju tillögurnar séu eingöngu fyrir þá sem eru betur settir en þeir sem lifa frá launaseðli til launaseðils séu skildir eftir og fái ekki neitt. Hérna í Flórída býðst þeim sem eru betur settir og hafa yfir 120% af meðallaunum einungis að taka bankalán eða húsnæðisstjórnarlán.

Þau 16 ár sem ég hef verið í fasteignasölu í Flórída, þá hafa næstum engar breytingar verið gerðar á aðstoð sem kaupendur á fyrstu fasteign geta fengið. Sá sem ekki hefur átt fasteign í þrjú ár, telst vera að kaupa fasteign í fyrsta sinn. Allir sem skulda í fasteign geta dregið vextina sem þeir greiddu frá tekjum og lækkað þannig skattskildar tekjur. Sá sem er að kaupa fasteign sem á að vera hans lögheimili getur fengið húsnæðisstjórnarlán (FHA) allt að 96,5% af verði eignarinnar. Þeir sem taka húsnæðisstjórnarlán verða að greiða tryggingu, um 5.850 kr. á mánuði, þar til lánshlutinn er kominn niður fyrir 80% af fasteignaverðinu. Allir sem eru með minna en 120% af meðaltekjum á svæðinu eiga möguleika á aðstoð við að kaupa fyrstu fasteign.

Ég skoðaði meðalhús sem kaupendur að fyrstu fasteign myndu líklega kaupa, húsið er 128 fm með þremur svefnherbergjum, tveimur baðherbergjum, eldhúsi, fjölskylduherbergi og einföldum bílskúr. Ásett verð á húsið er 13.923.000 kr. (miðað við gengi USD 117 kr.). Þeir sem kaupa þetta hús og eru með undir 120% af meðallaunum á svæðinu eiga möguleika á að fá aðstoð frá allt að 12 kerfum. Grunnkrafa til kaupandans frá öllum kerfunum er að kaupandinn sýni ábyrgð á fjármálum sínum og hafi möguleika á að taka húsnæðisstjórnarlán. Einnig verða allir að hafa lokið viðurkenndu námskeiði sem fjallar um fjármál heimilanna ásamt viðhaldi og rekstri fasteigna, þetta er helgarnámskeið.

Kemst í eigið húsnæði

Fjöllum nú aðeins um aðstoðina sem er í boði en hún er á bilinu frá að vera 234.000 kr. skattaafsláttur á ári upp í að vera allt að 5.850.000 kr. styrkur. Þetta fer eftir fjölskylduaðstæðum hvers og eins, það er tekjum og fjölda einstaklinganna í fjölskyldunni. Flest af þessum kerfum bjóða 862.000 kr. styrk til húsnæðiskaupanna miðað við að kaupandinn eigi að minnsta kosti 117.000 kr. af eigin fé til húsnæðiskaupanna. Þessi kerfi eru fjármögnuð með stimpilgjöldum af eignum og lánum, þegar eign er seld í Flórída þarf að greiða (vanalega seljandi) $7 af hverjum $1.000 sem eignin selst á. Af lánum greiða menn $3,5 af hverjum $1.000 sem þeir taka að láni.

Stundum kemur það fyrir að aðstoðarkerfin eru búin með fjármagnið sem þeim var úthlutað og það þarf að bíða þar til þau fá næst úthlutað fé. Við sem höfum verið lengi í fasteignabransanum látum það ekki stoppa okkur, ef kaupandinn á 117.000 og er ábyrgur í fjármálum þá getur hann fengið 96,5% húsnæðisstjórnarlán. Við bendum kaupandanum á að hann má biðja fjölskylduna um að gefa sér 3,5% sem vantar upp á og síðan biðjum við seljandann um að greiða lántökukostnaðinn. Til þess að seljandinn samþykki þetta þurfum við yfirleitt að skrifa kaupsamninginn á ásett verð og sleppa því að prútta um verðið. En niðurstaðan verður sú að fjölskyldan sem er að kaupa kemst í eigið húsnæði og húsnæðiskostnaður hennar lækkar.

Ástæðan fyrir þessari stuttu saman­tekt hjá mér er að mér blöskrar þessar eilífu breytingar á forsendum þeirra sem eru að kaupa eða eiga fasteignir á Íslandi. Það þarf að koma þessum málum í eðlilegt og varanlegt horf þannig að fjölskyldurnar á Íslandi geti skipulagt líf sitt og fjármál.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×