Handbolti

Arnar Freyr búinn að semja við sænsku meistarana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Freyr var í lykilhlutverki hjá Fram á síðasta tímabili.
Arnar Freyr var í lykilhlutverki hjá Fram á síðasta tímabili. vísir/anton
Einn efnilegasti varnar- og línumaður landsins, Arnar Frey Arnarsson, hefur samkvæmdum heimildum íþróttadeildar 365 samið við sænska liðið Kristianstads.

Samningurinn er til þriggja ára en er uppsegjanlegur af beggja hálfu að tveimur árum liðnum. Arnar Freyr kemur til Kristianstads frá uppeldisfélaginu Fram.

Danska liðið KIF Kolding mun einnig hafa borið víurnar í Arnar Frey en samkvæmt heimildum íþróttadeildar var það þjálfari Kristianstads, Ola Lindgren, sem réði úrslitum um val Arnars á liði.

Arnar mun halda til Svíþjóðar á morgun en hjá Kristianstads eru fyrir Íslendingarnir Ólafur Guðmundsson og Gunnar Steinn Jónsson sem samdi við sænska liðið í vor. Kristianstads hefur orðið sænskur meistari undanfarin tvö ár.

Íþróttadeild hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná tali af Arnari Frey en án árangurs.

Arnar Freyr var í íslenska landsliðinu skipað leikmönnum 20 ára og yngri á EM í Danmörku sem lauk um síðustu helgi. Ísland endaði í 7. sæti á mótinu.

Þessi sami hópur tók þátt á HM U-19 ára liða í Rússlandi í fyrra og endaði þá í 3. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×