Skoðun

Vegið að jafnrétti til náms

Svandís Svavarsdóttir alþingismaður skrifar
Frumvarp Illuga Gunnarssonar um Lánasjóð íslenskra námsmanna er aðför að jafnrétti til náms. Breytingarnar eru helstar að tekjutenging afborgana verður afnumin, mögulegur fjöldi ára á lánum skertur og vextirnir þrefaldaðir. Jafnframt eiga nemendur kost á 65 þúsund króna styrk á mánuði.

Helsti tilgangur sjóðsins er að að tryggja félagslegan jöfnuð og vekur því athygli að rektor Háskóla Íslands lýsir áhyggjum af því að hér sé vegið að því meginhlutverki. Bandalag háskólamanna gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og telur að háir vextir og afnám tekjutengingar afborgana þrengi verulega að stórum hópum sem leggja í langt nám. Doktorsnemar segja að hér sé verið að draga úr möguleika til doktorsnáms og fjármögnun þess í raun vísað alfarið í samkeppnissjóði.

Samkvæmt frumvarpinu verður aðeins lánað til sjö ára en sú breyting hefur fyrst og fremst áhrif á stöðu barnafólks, tekjulágra og þeirra sem hyggja á langt háskólanám.

Tekjulágt fólk lendir í vandræðum þegar afborganir eru ekki lengur tekjutengdar auk þess sem það fyrirkomulag getur haft áhrif á námsval og þar með samfélagið í heild.

Í velferðarsamfélagi er jafnrétti til náms mikilvægur þáttur og brýnt að hlusta vel eftir öllum þeim röddum sem lýsa áhyggjum af þeim breytingum sem hér eru boðaðar.

Ríkisstjórnin er rúin trausti, kosningar á næsta leiti, menntamálaráðherrann á leið út úr stjórnmálum og ljóst að umboðið til þess að takast á hendur svo stórtækar breytingar er ekki fyrir hendi. Það er raunar umhugsunarefni að í slíku grundvallarmáli skuli ráðherrann ekki byggja á breiðu samráði.

Allt frá afhjúpun Panama-skjalanna og þeim degi þegar forsætisráðherrann sagði af sér hefur öll vinna Alþingis miðað að samstöðu um flókin mál og þar hafa margir lagt mikla vinnu af mörkum.

Ný útlendingalög, breytingar á húsnæðiskerfinu, breyting á greiðsluþátttöku sjúklinga, nýtt millidómsstig og mál um losun hafta hafa öll verið unnin og leyst með þeim hætti. Búið er að flýta kosningum og samstarfi ríkisstjórnarflokkanna er að mestu lokið. Samstöðumál eru einu málin sem eiga að geta gengið fram undir slíkum kringumstæðum. Allir sjá að nýtt mál menntamálaráðherra um námslán og námsstyrki fellur ekki í þann hóp.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu




Skoðun

Sjá meira


×