Sport

Hrafnhildur hafnaði í sjötta sæti | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur eftir sundið í nótt.
Hrafnhildur eftir sundið í nótt. Vísir/Anton
Sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir varð í sjötta sæti í úrslitasundinu í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt.

Hrafnhildur Lúthersdóttir kom í mark á 1:07,18 mínútum en Íslandsmet hennar í greininni er 1:06,45 mínútur. Þetta er besti árangur íslenskrar sundkonu í sögu Ólympíuleikanna.

Hrafnhildur Lúthersdóttir var í sjötta sæti eftir fyrri 50 metrana og hélt því sæti út sundið.

Hrafnhildur Lúthersdóttir synti á 1:06,81 mínútu í undanrásunum en 1:06,71 mínútu í undanúrslitunum. Hún var með níunda besta tímann í undanrásum en sjöunda besta tímann í undanúrslitunum.

Lilly King frá Bandaríkjunum vann gullverðlaun á nýju Ólympíumeti, Yuliya Yefimova frá Rússlandi tók silfur og Katie Meili frá Bandaríkjunum fékk brons.

Hrafnhildur Lúthersdóttir var 2.25 sekúndum á eftir nýja Ólympíumeistaranum en Lilly King kláraði 100 metrana á 1:04,93 mín. Yefimova synti á 1:05,50 mínútum en Meili á 1:05,69 mínútum.

Þess má geta að heimsmethafinn og Evrópumeistarinn Ruta Meilutyte hafnaði í sjöunda sæti í greininni, á 1:07,32 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×