Innlent

Áfallið kom eftir að atburðarásin leið hjá

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Maður fór í hjartastopp á stigavél í tækjasalnum en Ásmundur hnoðaði og blés í hann lífi þar til sjúkrabíll kom.
Maður fór í hjartastopp á stigavél í tækjasalnum en Ásmundur hnoðaði og blés í hann lífi þar til sjúkrabíll kom. Vísir/EYÞÓR
„Það kemur mikið áfall á eftir en á meðan þessu stóð útilokaði ég allt nema bara að ná honum til baka,“ segir Ásmundur Kristinn Símonarson einkaþjálfari.

Hann bjargaði lífi manns í World Class á Seltjarnarnesi á dögunum. Maðurinn sem er á miðjum aldri fór í hjartastopp á stigavél í tækjasalnum en Ásmundur hnoðaði og blés í hann lífi þar til sjúkrabíll kom.

„Ég var að þjálfa annan mann og svo sé ég að maðurinn liggur þarna á gólfinu og hleyp að honum. Hann var alveg úti og ég byrja strax að hnoða og blása. Ég hélt um stund að ég myndi ekki ná honum til baka en hann datt út tvisvar eða þrisvar,“ segir Ásmundur og bætir við að hann hafi kallað í tvo starfsmenn, annan til að hringja í sjúkrabíl og hinn til að ná í stuðtæki. Hann segist vera þakklátur því hve hratt ungir starfsmenn stöðvarinnar hafi brugðist við.

Ásmundur hnoðaði og blés í manninn í fimm mínútur áður en hann fékk stuðtæki í hendurnar. „Mér leið eins og þetta væri klukkutími. Venjulega pumpar einn í sirka mínútu og svo tekur annar við en þarna var ég einn allan tímann og þetta tók mikið á,“ segir Ásmundur en eftir að sjúkraflutningamenn skoðuðu atvikið í myndavélum World Class sögðu þeir honum að hann hefði brugðist við eins vel og hægt var. „Þeir voru virkilega ánægðir með mig.“

Ásmundi, sem hefur lært skyndihjálp, finnst mikilvægt að meiri áhersla sé lögð á blástur en hann segir mun meiri áherslu lagða á að kenna hnoð. Í þessu tilfelli hafi það verið blásturinn sem bjargaði manninum. „Ég myndi vilja sjá áherslu á hvort tveggja. Það kom mér á óvart hvað var erfitt að blása líka.“

Eftir atvikið fór Ásmundur í göngutúr en hann segir atvikið hafa haft mikil áhrif á sig þrátt fyrir að það hafi endað vel. „Ég er svo heppinn að það er maður sem vinnur hérna sem hefur líka lent í svona og við ræðum mikið saman sem hjálpar.“

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×