Innlent

Stofnun múslima á Íslandi krefur RÚV um afsökunarbeiðni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Osama Krayem
Osama Krayem mynd/facebook
Stofnun múslima á Íslandi vísar tengingu við erlend hryðjuverkasamtök til föðurhúsanna og krefst afsökunarbeiðni frá RÚV vegna ásakana um tengingu við ISIS. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Stofnuninni.

Í frétt á vefsíðu RÚV í gær var því haldið fram að sænskur ríkisborgari, sem gekk til liðs við ISIS, tengdist Stofnun múslima á Íslandi. Tengingin stafaði vegna vinnu mannsins sem smiður fyrir Al-risalah samtökin í Svíþjóð.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Stofnunin er sjálfstæður lögaðili í rekstrarformi sjálfseignarstofnunar. „Það form gerir það að verkum, að enginn á félagið, heldur er það rekið af stjórn þess. Engin eignatengsl eru milli Stofnunarinnar og annarra félaga,“ segir í yfirlýsingunni.

Tekið er fram að innan allra hópa séu alls kyns aðilar og sumir þeirra ákveði að tengjast hryðjuverkasamtökum. Á því geti Stofnunin ekki borið ábyrgð.

„Sá starfsmaður sem hér um ræðir starfaði í stutta stund á vegum Al-risalah samtakanna í Svíþjóð, en kom aldrei til Íslands og ekki er forsvarsmönnum Stofnunarinnar ekki kunnugt um að hann hafi tengst múslimum á Íslandi. Þess ber að geta að umræddur maður starfaði síðar í tvö ár hjá hinu opinbera í sveitarfélaginu Malmö, þ.e. Malmö kommun. Auðsætt er að sveitarfélagið Malmö eða vinabæir þess um víða veröld geta ekki borið ábyrgð á því að starfsmenn þess velji að ganga til liðs við hryðjuverkasamtök enda sæta þau ekki, né heldur aðrir vinnuveitendur mannsins, gruggugum ásökunum um tengingar við hryðjuverkasamtök af þessum sökum.“

Í niðurlagi yfirlýsingarnar segir að Stofnunin vísi tengingu við hryðjuverkasamtök til föðurhúsanna og þá er afsökunarbeiðni krafist frá RÚV. Um sé að ræða alvarlegar ásakanir, sem virðast ekki byggja á öðru en slæmu viðhorfi í garð múslima.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×