Viðskipti innlent

Nýta blóðflögur til næringar fyrir stofnfrumur

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch er hluti af teyminu á bak við Platome líftækni.
Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch er hluti af teyminu á bak við Platome líftækni. Vísir/Eyþór
Startup Reykjavik fer fram í fimmta sinn um þessar mundir. Tíu fyrirtæki hafa tekið þátt ár hvert. Fyrirtækin sem taka þátt að þessu sinni eru mjög fjölbreytt, tvö eru að þróa tölvuleik, eitt er að framleiða súkkulaði og enn annað að framleiða næringu fyrir stofnfrumur til að flýta fyrir þróun á stofnfrumumeðferðum. Fréttablaðið kynnti sér starfsemi þeirra fyrirtækja sem kynntu sig á PopUp & Pitch-kvöldinu á fimmtudaginn.

Platome líftækni er fyrirtæki fram­leiðir nær­ingu fyr­ir stofn­frum­ur til að flýta fyr­ir þróun á stofn­frumumeðferðum.  Að baki fyrirtækisins standa Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, lífeindafræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands, sem er að klára doktorspróf í sameindalíffræði, og Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, doktor í stofnfrumum og ofnæmisfræði, og dósent við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, sem stýrir grunnrannsóknum og stofnfrumuvinnslu í Blóðbankanum.

„Við vinnum allar okkar vörur sem eru næring fyrir stofnfrumur úr blóðflögum frá Blóðbankanum sem á að henda þar. Við tökum þann efnivið og breytum yfir í næringu fyrir stofnfrumur. Það er hægt að nota þessa næringu inná rannsóknastofum þegar verið er að skoða og rannsaka stofnfrumur, til dæmis þegar er verið að þróa meðferðir úr stofnfrumum," segir Sandra.

Sandra segir að þau hafi verið að vinna að vörunni í fimm ár, en fyrirtækið hafnaði í öðru sæti í Gullegginu í vor. 

„Við erum byrjuð að framleiða og erum komin með rannsóknastofur sem eru að testa þetta fyrir okkur og viðskiptavini. Svo erum við að ganga frá framleiðsluferlinu í sumar og þjónustuaðila sem gera þetta undir algjörlega öruggum aðstæðum. Við erum bara að hefja í raun og veru markaðssetningu núna," segir Sandra.

Teymið var nýverið á ferðalagi þar sem þau tölðu á stórri ráðstefnu, sem yfir þúsund vísindamenn í þessum geira sóttu. „Við vorum með sýningabás og slíkt og vorum að markaðsestja fyrirtækið," segir Sandra.

Sandra segir að þáttaka í Startup Reykjavík hafi verið liður í að flýta ferlinu. „Við munum algjörlega vinna að þessu áfram þegar hraðlinum líkur, og munum bara halda áfram að fylgja þessari vöru. Markmiðið er að hún verði komin á markað í síðasta lagi í miðbik síðasta árs. Þá eiga að vera komnar ein eða tvær vörur á markað," segir Sandra.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.