Innlent

Fangar ánægðir með nýjar tölvur

Nadine Yaghi skrifar
Fangar mega ekki nota samskiptamiðilinn Facebook í nýju tölvunum.
Fangar mega ekki nota samskiptamiðilinn Facebook í nýju tölvunum. mynd/aðsend
Afstaða, félag fanga á Íslandi, gaf á dögunum Fangelsinu á Akureyri þrjár nýjar tölvur.

Tölvurnar eiga að nýtast föngum sem stunda fjarnám og eru þær í skólastofu í fangelsinu.

„Það var mjög nauðsynlegt að okkar mati að endurnýja tölvubúnaðinn þar sem sá búnaður sem var fyrir var orðinn mjög gamall og í raun ónothæfur,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu.

Guðmundur segir að Afstaða líti á gjöfina sem betrun og bættan aðbúnað sem geti hvatt til náms. „Undanfarin tvö ár hefur verið góð þátttaka í fjarnámi í fangelsinu og er til dæmis einn fanga að klára stúdentspróf núna í sumar eftir að hafa verið í fjarnámi í fangelsinu.

Elva Karlsdóttir, aðalvarðstjóri í Fangelsinu á Akureyri, fagnar gjöfinni og segir að nýju tölvurnar veki mikla lukku. Sérstaklega meðal þeirra sem stunda nám en í augnablikinu er einn fangi í háskólanámi og þrír í framhaldsnámi.

„Allir fangarnir hafa þó aðgang að tölvunum en þeir sem eru í skóla fá forgang og meiri tíma. Það er auðvitað hvatning fyrir þá að læra þegar það eru komnar betri tölvur,“ segir Elva.

Fangar mega ekki nota samskiptamiðilinn Facebook en samkvæmt Elvu eru þeir sem ekki stunda nám að nota tölvurnar til þess meðal annars að lesa fréttir, hlusta á tónlist eða horfa á myndbönd.



Fréttin birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×