Innlent

Stofnun múslima var trúfélag fyrir mistök

Nadine Yaghi skrifar
Yfirlýsing Reykjavíkurborgar er á ensku.
Yfirlýsing Reykjavíkurborgar er á ensku. vísir/skjáskot/stefán
Reykjavíkurborg sendi frá sér yfirlýsingu í nóvember á síðasta ári þess efnis að Stofnun múslima á Íslandi væri trúfélag. Það var gert fyrir mistök. Yfirlýsingin var dregin til baka með bréfi nú í lok júní.

Bæði skjölin voru einnig undirrituð af starfsmönnum utanríkisráðuneytisins.







„Yfirlýsingin var einfaldlega röng og þetta byggðist greinilega á misskilningi. Það hefur aldrei verið rétt að stofnunin sé skráð trúfélag eins og haldið var fram,“ segir Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi en hann þekkir vel til málsins. „Ég hef heyrt að stofnunin hafi notað þessa yfirlýsingu til að þiggja fjármuni en get þó alls ekki fullyrt það. Ef einhver hefur verið að þiggja fjármuni á röngum forsendum þá getum við ekki annað gert en leiðrétt það," segir Halldór og útskýrir að misskilningurinn hafi líklega byggst á því að Menningarsetur múslima hafi verið staðsett í húsnæði Stofnunarinnar þar til fyrir um mánuði.



Trúfélög eru undanþegin fasteignaskatti samkvæmt lögum. Halldór segir stofnunina ekki hafa greitt gjöld af húsnæði sínu við Skógarhlíð en það hafi hins vegar ekki verið vegna yfirlýsingarinnar heldur vegna þess að Menningarsetur múslima hafi leigt húsnæðið þar til nú fyrir skömmu. Í dag greiði stofnunin hins vegar fasteignagjöldin eðli málsins samkvæmt þar sem trúfélag hafi ekki lengur starfsemi í húsinu.

Karim Askari, framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi, segist ekki hafa fengið neina yfirlýsingu um það að mistök hafi orðið og stendur fast við það að stofnunin sé í raun trúfélag. Aðspurður hvort hann hafi notað skjalið til að fá fé að utan segir Karim svo ekki vera, en þekkt er að yfirvöld í Sádi-Arabíu styrki trúfélög múslima víða um heim. „Við vorum bara að nota þetta skjal til að sýna fólki hérna á Íslandi að við séum í raun trúfélag. Við erum trúfélag og höfum verið alveg frá byrjun,“ segir Karim og bætir við að stofnunin greiði ekki fasteignagjöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×