Innlent

Telja frumvarp um LÍN til góðs fyrir flóttamenn

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Í frumvarpinu eru nýmæli um að þeir sem eru með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli þess að vera flóttamenn geta fengið námsaðstoð.
Í frumvarpinu eru nýmæli um að þeir sem eru með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli þess að vera flóttamenn geta fengið námsaðstoð. fréttablaðið/valli
„Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli þegar við erum að taka á móti flóttamönnum að við tryggjum sem best að þeir fái tækifæri til að mennta sig og komast þannig sem hraðast inn í samfélagið okkar,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, en hann segir fyrirhugaðar breytingar á námslánakerfi LÍN vera til góðs fyrir flóttamenn. Það sé breyting þar á frá núverandi kerfi en Illugi lagði fram nýtt frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna, LÍN, í síðasta mánuði. Frumvarp Illuga var samþykkt á fundi ríkisstjórnar í maí en ekki er enn búið að mæla fyrir því á Alþingi.

Í frumvarpinu eru nýmæli um að þeir sem eru með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli þess að vera flóttamenn geti fengið námsaðstoð. Í dag er það hins vegar þannig að flóttamenn þurfa að uppfylla skilyrði til að fá námsaðstoð. Í fyrsta lagi að vera í hjúskap með íslenskum ríkisborgara sem uppfylli sjálfur skilyrði sjóðsins eða að hann hafi haft lögheimili hér á landi í tvö af fimm árum. „Aðalbreytingin er sú að áður þurfti að uppfylla þessi skilyrði sem mun þá ekki þurfa lengur. Hafi flóttamaður fengið dvalarleyfi á grundvelli laga um útlendinga þá getur viðkomandi sótt um náms­aðstoð,“ segir Illugi og bætir að við þetta hagnist allt samfélagið. „Með því að þeir fái möguleika á því að nýta krafta sína og getu og með því að fjárfesta í tækifærum fyrir flóttamenn erum við um leið að fjárfesta í betra samfélagi.“

Illugi áréttar að þegar búið sé að taka ákvörðun um að taka á móti flóttamönnum þá skipti miklu máli að allt sé gert til að einstaklingarnir aðlagist samfélaginu og fái tækifæri til að vaxa og dafna.

Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Rauða kross Íslands, segir að Rauði krossinn fagni því að flóttafólki verði tryggður þessi réttur til jafns við aðra, enda fullkomlega sjálfsagður hlutur. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×