Innlent

Guðrún Ögmundsdóttir nýr stjórnarformaður UNICEF á Íslandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðrún Ögmundsdóttir.
Guðrún Ögmundsdóttir. vísir/vilhelm
Guðrún Ögmundsdóttir er nýr stjórnarformaður UNICEF á Íslandi og tekur við formennsku af Svanhildi Konráðsdóttur. Guðrún er menntaður félagsráðgjafi og starfar sem tengiliður vistheimila í innanríkisráðuneytinu. Hún gegndi meðal annars þingmennsku um árabil. Guðrún tók sæti í stjórn UNICEF á Íslandi árið 2011.

Fimm nýir stjórnarmenn bættust í stjórn UNICEF á Íslandi á aðalfundinum sem fram fór í gær. Þetta eru þau Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar; Harpa Eir Þorleifsdóttir, menntaskólanemandi og fulltrúi ungmennaráðs; Kjartan Ólafsson, fjárfestir; Sigríður Thorlacius, tónlistarkona; og Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins. Stjórnarmenn gegna allir störfum sínum í sjálfboðavinnu.

Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, lét í gær af embætti sem stjórnarformaður en hún hafði gegnt stöðunni í sex ár og verið samtals níu ár í stjórn. Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, lét af embætti sem varaformaður en hann hafði gegnt stöðunni frá 2010 og tekið þátt í baráttu UNICEF á Íslandi nánast frá upphafi.

Úr stjórninni vék einnig Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, sem líkt og Karl hafði starfað með UNICEF á Íslandi nánast frá upphafi. Sara Mansour, nemandi við MH, kvaddi einnig stjórnina í gær en hún hafði setið þar í tvö ár sem fulltrúi ungmennaráðs. Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur, hvarf einnig úr stjórn í gær en hann hafði setið í stjórninni í þrjú ár.

„Við hjá UNICEF á Íslandi þökkum þeim öllum ómetanlegt starf í gegnum árin. Það hafa verið forréttindi að hafa slíkan hóp af fólki með okkur og þeirra verður sárt saknað. Um leið bjóðum við nýja stjórnarmenn hjartanlega velkomna og hlökkum til samstarfsins,“ er haft eftir Bergsteini Jónssyni, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, í tilkynningu frá félaginu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×