Innlent

Mikilvægt að bjóða nám í heimabyggð

Ingunn Jónsdóttir og samstarfsfólk frá erlendu háskólunum. Mynd/Háskólafélag Suðurlands
Ingunn Jónsdóttir og samstarfsfólk frá erlendu háskólunum. Mynd/Háskólafélag Suðurlands
Menntamál „Þetta nám, Ferðamálabrúin, sem við erum að hefja í haust er hugsað fyrir fólk sem starfar við skipulagningu og/eða rekstur ferðaþjónustufyrirtækja eða hefur áhuga á slíku og námsþættirnir miða að því,“ segir Ingunn Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Háskólafélagi Suðurlands, um nám sem mun standa til boða á Selfossi í haust. Námið er tveggja anna langt og er um það bil þrjátíu prósent af fullu námi. „Nám í heimabyggð er eitt af þessum stóru verkefnum er snúa að jákvæðri byggðaþróun,“ segir Ingunn. Verkefnið er styrkt af Erasmus+ sjóðnum og komu Háskólinn í Malaga á Spáni og University of Highlands and Islands í Skotlandi, sem Ingunn segir standa framarlega á þessu sviði, að verkefninu ásamt Háskólafélagi Suðurlands. Háskólana segir hún eiga heiðurinn af flestum kúrsum sem upp á er boðið. „Mikið er lagt upp úr því að nemendurnir eigi auðvelt með að koma fram og miðla upplýsingum, hvort sem er við ferðamenn eða samtarfsfólk því góð samskipti eru lykilatriði í öllum okkar störfum. Hvor önn hefst því á helgarlöngum kúrs sem kallast Samskipti, miðlun og tjáning,“ segir Ingunn. Námið segir hún hugsað sem raunhæft nám. „Nemendurnir eru að fást við mjög raunverulega verkefni með verkfærum sem þau halda áfram að beita á vinnumarkaðinum.“ Kennsla fer öll fram á Selfossi en gert er ráð fyrir nemendum í fjarnámi þar sem Háskólafélagið rekur fjarnámsver víðsvegar um Suðurland. „Það sem við erum að fara af stað með í haust er svokallað „pilot“ af náminu, það er prufukeyrsla, sem er hugsuð í þeim tilgangi að hafa svigrúm til þess að fínpússa námsþættina og er nemendum gerð grein fyrir því að þeir þurfa að vera duglegir við endurgjöf til okkar um þeirra upplifun á kúrsunum sem og allri nálgun,“ segir Ingunn. Hún vonast til þess að eftir veturinn verði hægt að halda náminu úti áfram á Suðurlandi. Fyrir má sækja annað ferðamálanám víðs vegar um landið. Til að mynda ferðamálafræði í Háskóla Íslands og á Hólum og ferðamálabraut Framhaldsskólans á Laugum. thorgnyr@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×