Innlent

Genin ráða hvenær lax snýr aftur

Svavar Hávarðsson skrifar
Um sjötíu prósent af veiddum stórlaxi sumarið 2015 fengu lífgjöf frá veiðimönnum.
Um sjötíu prósent af veiddum stórlaxi sumarið 2015 fengu lífgjöf frá veiðimönnum. Mynd/NASF
Komið hefur í ljós að það er arfgengt hvort laxar dvelja eitt eða tvö ár í sjó. Þetta undirstrikar mikilvægi þeirrar aðgerðar að sleppa stórlaxi, sem hvatt hefur verið til á undanförnum árum.

Upplýsingar um þessa mismunandi arfgerð laxa koma fram í grein sem birtist fyrir skömmu í hinu virta vísindariti Nature, og vitnað er til af Guðna Guðbergssyni, fiskifræðingi hjá Veiðimálastofnun, í nýrri lokaskýrslu um lax- og silungsveiðina sumarið 2015.

Í Nature er sagt frá rannsóknum sem sýndu að fundist hefur gen í laxi sem gegnir veigamiklu hlutverki í að ákvarða hvort Atlantshafslax gengur til hrygningar sem smálax, og þá eftir eitt ár í sjó eða stórlax eftir tvö ár eða lengur.

„Fækkun laxa með tveggja ára sjávardvöl (stórlaxa) stóð nærri samfellt frá miðjum níunda áratug síðustu aldar fram til 2000 og veldur sú fæð stórlaxa verulegum áhyggjum. Talið er að meginorsökin fyrir minnkandi stórlaxagengd á undanförnum tveimur áratugum sé vegna hækkaðrar dánartölu laxa á öðru ári í sjó,“ skrifar Guðni.

Guðni Guðbergsson
Eins og kunnugt er hafa Landssambönd veiðifélaga og stangveiðimanna auk Veiðimálastofnunar beint þeim eindregnu tilmælum til veiðimanna að þeir sleppi stórlaxi í stangveiði. Veiðimálastofnun hefur þá skorað á veiðiréttarhafa og stjórnvöld að grípa til friðunar á stórlaxi í íslenskum veiðiám á meðan þetta ástand varir.

Þetta hefur borið árangur. Laxi hefur fjölgað og hlutfall þeirra laxa sem veiddir eru á stöng og sleppt aftur hefur hækkað. Sumarið 2015 var 42,8% smálaxa af villtum uppruna sleppt aftur en 70% stórlaxa, segir í skýrslu Veiðimálastofnunar.

Fréttir undanfarinna daga af upphafi laxveiða í Norðurá, Blöndu og Þverá/Kjarará hafa allar verið á einn veg. Mikið af stórlaxi hefur veiðst í upphafi veiðitímans og vöktu niðurstöðutölur opnunarhollanna athygli, enda um metveiði að ræða. Um helgina var það sama uppi í Þverá/Kjarará í Borgarfirði þar sem tugir laxa komu á land.

Einar Sigfússon, sölustjóri í Norðurá, sagði í viðtali við Stöð 2 að hann hefði mikla trú á því að upphaf veiðitímans, og fjöldi stórlaxa, væri í beinu sambandi við það átak veiðimanna og yfirvalda að sleppa veiddum stórlaxi. Til þess ber einnig að líta að veiðin sumarið 2015 var sú fjórða mesta sem sagan geymir. Þetta uppfyllir vonir veiðimanna vegna sterkra gangna smálaxa í fyrrasumar, og svo virðist sem aðstæður í sjónum hafi verið góðar um skeið – enda lax að ganga sem er afar vel haldinn.

Stórveiðisumar

staðfest:

-
Sumarið 2015 var stangveiði á laxi í ám á Íslandi alls 71.708 laxar.

-Af þeim var 28.120 (39,2%) sleppt aftur.

-Af veiddum löxum voru 61.576 laxar með eins árs sjávardvöl (smálaxar) (85,8%).

-Af veiddum löxum voru 10.132 (14,2%) laxar með tveggja ára sjávardvöl eða lengri (stórlaxar).

-Skráð stangveiði 2015 var sú fjórða mesta sem skráð hefur verið hér á landi og rúmlega tvöfalt meiri en var á árinu 2014 þegar 33.598 laxar veiddust.

-Veiðin var um 76% yfir meðalveiði áranna 1974 til 2014 (40.684).

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×