Innlent

Dæmdur fyrir að hrinda manni niður tröppur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá Ísafirði
Frá Ísafirði vísir/pjetur
Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Vestfjarða 30. maí síðastliðinn dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás fyrir utan kaffihúsið Húsið á Ísafirði.

Manninum var gefið að sök að hafa í ágúst í fyrra ráðist að öðrum manni, hrifsað í hann og kippt honum niður með þeim afleiðingum viðkomandi féll niður tröppur fyrir utan staðinn. Brotaþoli hlaut hruflsár á enni, nefi og beinbrot á hægri hendi.

Brotaþoli gat ekki bent á hver það var sem hrinti honum niður tröppurnar þar sem hinn sakfelldi, sem er skipverji á skipi sem lá við bryggju á Ísafirði, kom aftan að honum og hrinti honum niður fyrirvaralaust.

Sakborningur málsins mundi ekkert eftir atvikum kvöldsins sökum ölvunar. Við skýrslutöku hjá lögreglu kannaðist hann ekki við að hafa farið á Húsið umrætt kvöld eða að hafa hrint brotaþola.

Sjóarinn neitaði því ávallt að hafa hrint manninum niður tröppurnar. Dómari málsins féllst hins vegar ekki á það þar sem fjöldamörg vitni töldu sig hafa séð téðan sjóara hrinda manninum.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem maðurinn hlýtur dóm fyrir líkamsárás. Í upphafi þess var hann dæmdur fyrir árás sem átti sér stað í Keflavík. Sökum hennar var honum gerður hegningarauki að þessu sinni.

Maðurinn hlaut þriggja mánaða fangelsisdóm sem fellur niður haldi hann skilorð í tvö ár. Þá var honum gert að greiða fórnarlambinu 300.000 krónur í miskabætur og allan málskostnað, 671.400 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×