Skoðun

Samfélag á foraðgerðarstigi?

Árni Davíðsson skrifar
Afstaða fólks til bílastæða og hvernig það leggur bílum sínum er á margan hátt sérstök. Fullorðið fólk sem virðist eðlilegt að öllu leyti sér ekkert óeðlilegt við það að leggja bílum sínum þannig að það hindri för gangandi vegfarenda, barna, fólks í hjólastól og blinds fólks um gangstéttir, stíga og gangbrautir. Margir sjá heldur ekkert að því að hindra aðgang að bílastæðum hreyfihamlaðra eða aðgang samborgara sinna að nauðsynlegri þjónustu með því að leggja bílnum í fleiri en eitt bílastæði. Hvað veldur þessu háttalagi? Ein leið að skoða þetta er að leita í smiðju þroskasálfræðinnar til að skýra þessa hegðun. Hvað getur t.d. Piaget kennt okkur um þetta vandamál í okkar annars ágæta samfélagi?

Eitt stigið í þroska barna samkvæmt kenningum Piagets heitir foraðgerðarstig og nær um það bil yfir aldurinn 2-7 ára. Það sem einkennir þetta stig öðru fremur er orðrétt: „Annars er sjálflægni eitt megineinkenni hugsunar á foraðgerðarstiginu og kemur fram í því að barnið getur ekki séð hluti frá öðru sjónarhorni en sínu, getur ekki sett sig í spor annarra. Sjálflægni kemur meðal annars fram í leikjum barna á forskólaaldri. Á þessum aldri geta börn ekki fylgt leikreglum en þau halda því samt sem áður fram að þau geri það. Þannig komst Piaget að því að börn mynda sínar eigin leikreglur og fylgir þá hvert sínum reglum.“

Þá er ekki óeðlilegt að maður spyrji sig, eru þeir sem leggja illa og ólöglega á foraðgerðarstiginu? Nei, auðvitað er ekki rétt að halda því fram að allir sem leggja illa eða ólöglega séu fastir á foraðgerðarstiginu, það væri fáránlegt. Þeir sem leggja með þessum hætti sýna hins vegar hegðun sem einkennir foraðgerðarstigið. Ég held að þetta sé frekar ákveðið menningarlegt fyrirbæri þar sem sú hefð hefur skapast að menn geta gert það sem þeim sýnist vegna þess að „allir“ aðrir gera það.

Látið óátalið

Það má frekar segja að samfélagið sé á foraðgerðarstigi, ekki einstaklingarnir. Þar kemur líka til að lögreglu- og bæjaryfirvöld víðast hvar, nema í Reykjavík, eru samdauna ástandinu og átta sig ekki á hvað þetta er skemmandi. Samúð þeirra er með yfirgangi bílstjóra frekar en með börnum, fötluðum og öðrum sem fyrir yfirganginum verða. Þess vegna eru kvartanir ekki teknar alvarlega af yfirvöldum og þetta látið óátalið. Nú er stundum öðru haldið fram en menn ættu í þessu sem öðru að dæma menn af verkum sínum en ekki orðum.

En hvað skyldi fleira einkenna foraðgerðarstigið?: „Annað sem einkennir foraðgerðarstigið er að barnið fer að nota tákn yfir hluti. Strákar „burra“ með kubb til dæmis. Börn á foraðgerðarstiginu hafa tilhneigingu til að meðhöndla hluti eins og þeir væru lifandi og með svipaða eiginleika og fólk. Þau tala við brúðurnar sínar og finna til með þeim, það má til dæmis alls ekki stíga á bangsa því að þá meiðir hann sig.“

Minnir þetta ekki talsvert á umræðuhefðina um bíla í tilkynningum yfirvalda og fjölmiðla? Bílar gera þar hitt og þetta, lenda í árekstrum, keyra út af, velta o.s.frv. Sjaldnast er bílstjóri bak við stýrið, sem ber ábyrgð á akstrinum. Kannski er það eins með bíl sem hefur verið illa eða ólöglega lagt? Kannski leggja þeir bara sjálfir og bílstjórinn er barasta stikkfrí og saklaust fórnarlamb bílsins? Eða hvað?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júní




Skoðun

Sjá meira


×