Innlent

„Sumarið fer af stað með látum“

Birgir Olgeirsson skrifar
Blíða var nánast á landinu öllu í dag.
Blíða var nánast á landinu öllu í dag. Vísir/Hanna
Mikil blíða var á landinu í dag en hæti hiti mældist hæst 24,9 gráður á Egilsstöðum. Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur heldur úti veðurblogginu Veðurlífi á Facebook en þar segir hún að í byrjun júní hafi hitinn náð yfir hæsta gildi alls síðasta árs. „Það er því óhætt að segja að sumarið fer af stað með látum,“ skrifar Birta Líf.

Næst hæsti hitinn mældist 23,3 stig í Húsafelli og sá þriðji var 22,5 stig á Reykjum í Fnjóskadal.   Á morgun er búist við hægviðri eða hafgolu. Yfirleitt léttskýjað inn til landsins, en allvíða skýjað eða þokuloft við sjóinn. Hiti frá átta stigum í þokulofti við strendur en upp í 22 stig í innsveitum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:Suðaustan og austan 5-10 m/s með suður- og norðurströndinni, annars hæg breytileg átt. Bjartviðri að mestu á Austurlandi, annars skýjað með köflum og sums staðar lítilsháttar væta. Hiti frá 7 stigum við norðurströndina upp í 20 stig austanlands.

Á mánudag:Norðaustan og austan 3-8 m/s, skýjað með köflum og dálítil væta norðanlands. Hiti 7 til 18 stig, hlýjast suðvestanlands.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:Austlæg átt ríkjandi, bjartviðri á köflum á vesturhelmingi landsins, annars skýjað að mestu en úrkomulítið. Áfram tiltölulega hlýtt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×