Innlent

Veiðiréttarhafar reyna laxarækt í Lagarfljóti

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Í Lagarfljóti er Lagarfossvirkjun nokkur farartálmi laxfiska sem þó geta komist upp fiskistiga við virkjunina.
Í Lagarfljóti er Lagarfossvirkjun nokkur farartálmi laxfiska sem þó geta komist upp fiskistiga við virkjunina. Mynd/Jóhannes Sturlaugsson
„Það á að gera athugun á því hvort lífslíkur laxins eru nægar þarna á svæðinu,“ segir Jóhannes Sturlaugsson hjá fyrirtækinu Laxfiskum sem tekið hefur að sér tilraunverkefni með laxarækt í Lagarfljóti.

Laxaverkefnið er á vegum Veiðifélags Lagarfljóts með aðkomu Landsvirkjunar, að sögn Jóhannesar. Gerð verður sleppitjörn í Uppsalaá sem rennur út í Eyvindará til móts við Egilsstaði.

Nú í júní á að sleppa um 30 þúsund seiðum úr klaki í Jöklu og Lagarfljóti sumarið 2014. Áætlað er að sumarið 2017 verði 50 þúsund seiðum sleppt til sjávar.

Jóhannes varar við of mikilli bjartsýni. „Eins og þeir vita og ég sagði í upphafi við heimanmenn er á brattann að sækja. Gruggið er orðið svo mikið að það er spurning hvernig laxinum gengur að ganga upp og endurheimtur á þessu landsvæði eru miklu lakari en það sem þekkist best hér við land,“ útskýrir hann.

Í gegnum tíðina hefur seiðum stundum verði sleppt við Lagarfljót. „En það hefur alltaf verið svo laust í reipunum og það vantaði að það væri marktækt. Nú vilja menn fá í eitt skipti fyrir öll á hreint hvort þetta sé mögulegt,“ segir Jóhannes.

Ein af hindrunum er fiskistiginn við Lagarfossvirkjun. „Hann er líklega sá stigi á landinu sem menn hafa klórað sér mest í hausnum yfir og gert mestu breytingarnar á,“ segir Jóhannes. Meira að segja áður en Fljótsdalsvirkjun var tekin í gagnið hafi ekki verið um auðugan garð að gresja fyrir laxinn í vatnakerfi Lagarfljóts.

„Núna er verulega búið að bæta í gruggið. Þeir hafa svo sem verið að drattast upp stigann, þessir eftirlifendur laxanna síðustu árin, en við erum að tala um örfá stykki á hverju sumri,“ segir Jóhannes sem kveður alla vera spennta fyrir að sjá heimturnar næsta sumar og svo áfram. Ef allt fari á besta veg sé stefnan að koma upp sleppitjörnum í fleiri hliðarám Lagarfljóts og nýta þær til stangveiði.

„Eins og staðan er þarna væru allir ánægðir ef það væri hægt að láta þetta ganga á núlli. Þetta er ekkert gróðabrall,“ undirstrikar Jóhannes Sturlaugsson.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júní. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×