Innlent

Hugmyndir að betri Reykjavík: Hegningarhúsið verði baðhús og útikörfuboltavöllur í Laugardal

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er orðið rúmlega 140 ára en komin er fram hugmynd að breyta því í baðhús.
Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er orðið rúmlega 140 ára en komin er fram hugmynd að breyta því í baðhús. vísir/gva
Vefurinn Betri Reykjavík var opnaður fyrir rúmri viku og hafa borgarbúar nú sent inn hátt í 400 hugmyndir. Hægt er að senda inn hugmyndir til 15. júní næstkomandi en alls mun borgin setja 450 milljónir króna til framkvæmda á þeim hugmyndum sem koma inn í ár. Hægt er að sjá hvernig skipting fjármuna verður eftir hverfum inni á vef Reykjavíkurborgar.

Kosið er um hugmyndirnar inni á Betri Reykjavík. Þrjár hugmyndir standa upp úr í augnablikinu í vinsældum en sú vinsælasta með 216 „likes“ er um útikörfuboltavöll í Laugardalnum. Hugmyndin er að gerður verði körfuboltavöllur með sex körfum við hliðina á brettagarðinum gegnt Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

Síðan hafa 198 látið sér líka við hugmynd um knattspyrnuhús á ÍR-svæðinu í Skógarseli. Þá nýtur hugmyndin um að gera Hegningarhúsið að baðhúsi nokkurra vinsælda einnig en hún er með 111 „likes.“ Hegningarhúsinu var lokað á miðvikudaginn en nýtt fangelsi á Hólmsheiði verður tekið í notkun síðar á árinu. Húsið er 140 ára gamalt og löngu úrelt sem fangelsi en ekki er víst hvað kemur í staðinn. 

Hugmyndin er að gert verði baðhús að austur-evrópskri fyrirmynd. Gömlu fangaklefarnir yrðu saunuklefar og þá yrði komið fyrir köldum pottum.

„Í garðinum væri hægt að láta rjúka úr sér á veturna og sóla sig á sumrin. Þar væri einnig hægt að stunda hugleiðslu, jóga og Mullersæfingar. Baðhús Reykjavíkur myndi bjóða upp á heilsárskort á sanngjörnu verði. Heilsulind fyrir alla og viðbót í sundmenninguna,“ segir á vefnum um hugmyndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×