Innlent

Gagnrýnir Hildi Þórðardóttur forsetaframbjóðanda: „Fólk eins og þú er hreinlega hættulegt“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarney Bjarnadóttir
Bjarney Bjarnadóttir mynd/bjarney
Facebook-færsla Bjarneyjar Bjarnadóttur, sem er BRCA-arfberi en stökkbreyting í því geni veldur brjóstakrabbameini, hefur vakið mikla athygli í dag en þar gagnrýnir hún Hildi Þórðardóttur forsetaframbjóðanda vegna ummæla sem hún lét falla í kappræðum RÚV í gær.

Þar gagnrýndi Hildur að það væri verið að hvetja konur til að láta fjarlægja heilbrigð brjóst ef þær væru BRCA-arfberar. Í staðinn væri sett sílikon sem væri hættulegt efni og spurði Hildur hvar þetta myndi enda, hvort það yrðu til dæmis sett plastlungu í fólk þegar búið væri að finna genið við lungnakrabbameini.

Í Facebook-færslu sinni segist Bjarney fyrst hafa hlegið að málflutningi Hildar en eftir því sem skoðanir frambjóðandans í þessa veru heyrist oftar því minna umburðarlyndi hafi hún fyrir þeim:

„Þú segir að brjóstin séu heilbrigður líkamspartur þó að BRCA genið sé til staðar og algjörlega ástæðulaust að fjarlægja þau. Brjóstin á mömmu, ömmu og öllum frænkum mínum sem hafa látist úr brjóstakrabbameini, voru auðvitað alheilbrigð, alveg þar til þau fengu krabbamein...

Fólk eins og þú er hreinlega hættulegt (spurðu bara Steve Jobs).

Sem betur fer virðist þú ekki hafa mikið fylgi en bara það ef ein kona týnir lífi sínu af því að hún ákveður að prófa heilun í staðinn fyrir hefðbundin læknavísindi vegna þín, þá er skaðinn af þessu framboði þínu orðinn óbætanlegur,“ segir Bjarney í færslu sinni og bætir við að það komi hvorki Hildi né neinum öðrum við hvað hún eða aðrar konur geri við brjóstin sín.

Færslu Bjarneyjar má sjá má í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×