Innlent

Sjómönnum fagnað um land allt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Hátíð hafsins í Reykjavík á seinasta ári.
Frá Hátíð hafsins í Reykjavík á seinasta ári. vísir/stefán
Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur um land allt í dag. Í Reykjavík er deginum fagnað á Hátíð hafsins en hátíðarsvæðið nær frá Hörpu, um gömlu höfnina, út á Grandagarð og að HB Granda.

Útisvið verður á Grandagarði með skipulögðum viðburðum í dag þar sem sjómenn verða meðal annars heiðraðir í dag, flutt verða ávörp auk þess sem ýmsir tónlistarmenn koma fram, þar á meðal Kristjana Stefánsdóttir og Svavar Knútur.

Þá verður dagskrá fyrir yngri kynslóðina á útisviði hjá HB Granda þar sem boðið verður meðal annars upp á skemmtiatriði úr smiðju Latabæjar og þá mætir Lína langsokkur á svæðið.

Á Akureyri er líka fjölbreytt dagskrá í dag en nú klukkan 11 hefjast sjómannamessur í Akureyrarkirkju og Glerárkirkju. Frá klukkan 14 verður síðan hátíðardagskrá við Hof þar sem trúðurinn Wally bregður meðal annars á leik auk þess sem bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónsson troða upp.

Það verður einnig nóg um að vera í Grindavík í dag en dagskrá sjómannadagsins er hluti af bæjarhátíðinni Sjóaranum síkáta. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, flytur hátíðarræðu í tilefni dagsins. Þá verður ýmislegt við að vera, meðal annars verða sett upp nokkur risastór fiskabúr á bryggjunni og svo minni búr með kröbbum og ýmsum sjávardýrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×