Innlent

Akureyringar vilja flugvallarframkvæmdir strax

Sveinn Arnarsson skrifar
Akureyrarbær á mikið undir öflugum samgöngum.
Akureyrarbær á mikið undir öflugum samgöngum. vísir/pjetur
Bæjarráð Akureyrar skorar á ríkisstjórn og Alþingi að leggja strax til fé til þess að ljúka flutningi á efni sem til fellur úr Vaðlaheiðargöngum í flughlað við Akureyrarflugvöll. Bókun þess efnis var samþykkt á fundi ráðsins á fimmtudag.

Gagnrýnir bæjarráð ríkið harðlega og segir það ótækt að ekki skuli fjármagn tryggt í verkefnið á sama tíma og ríkið, í gegnum Isavia, sé að leggja miljarðatugi í uppbyggingu á millilandaflugvellinum í Keflavík. Við það verði ekki unað.

Bendir bæjarráð á að hér sé um varaflugvöll að ræða og því skipti það gríðarlega miklu máli að flughlað verði klárað svo það geti tekið við verkefnum þegar Keflavík lokast.

„Efnið sem kemur úr göngunum er mjög hentugt sem burðarlag undir flughlað, auk þess sem það kostar ríkið ekkert annað en flutning á svæðið. Það er ljóst að ef þetta tækifæri verður ekki nýtt, mun kostnaður við flughlaðið aukast verulega, þar sem sækja verður efni um lengri veg og greiða fyrir,“ segir í bókun bæjarráðs.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×