Innlent

Ráðstefnugestum á Íslandi hefur fjölgað um 44 prósent frá 2011

Svavar Hávarðsson skrifar
Með tilkomu Hörpu gjörbreyttust aðstæður hérlendis til ráðstefnuhalds.
Með tilkomu Hörpu gjörbreyttust aðstæður hérlendis til ráðstefnuhalds. vísir/vilhelm
Gjaldeyristekjur af ráðstefnu,- hvataferða- og viðburðagestum fyrir árið 2015 til íslenska þjóðarbúsins eru metnar á um 32 milljarða króna. Þetta kemur fram í skýrslu frá Meet in Reykjavík sem unnin var í samvinnu við Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar, segir í frétt frá Reykjavíkurborg.

Þannig er árlegur meðalvöxtur þessara ferðamanna um 4,4 prósent á heimsvísu en fimm prósent í Evrópu. Á Íslandi hefur árlegur meðalvöxtur hins vegar verið um 13,6 prósent frá árinu 2011.

Áætlað er að hingað hafi komið 88.000 gestir, sem tilheyra þessum hópi ferðamanna, til landsins árið 2015. Flestir koma utan háannatíma, eða 70 prósent ráðstefnugesta og 75 prósent hvataferðamanna, sem stuðlar að lengingu ferðamannatímans á Íslands.

Stígandi vöxtur er á heildarfjölda ráðstefna og hefur ráðstefnugestum fjölgað um 44 prósent frá árinu 2011 og með tilkomu Hörpu hafa ráðstefnur með þúsund manns eða fleiri tólffaldast. Alls voru til að mynda ellefu alþjóðlegar ráðstefnur haldnar í Hörpu árið 2015 en sextán eru þegar bókaðar árið 2016. Athygli vekur einnig hin mikla aukning sem orðið hefur á hvataferðum og hefur hvataferðagestum fjölgað um 152 prósent frá árinu 2011.

Að Meet in Reykjavík standa 44 fyrirtæki sem starfa innan ráðstefnu-, funda- og hvataferða eða viðburðamarkaðar eða sjá hag sinn í styrkingu þessa markaðshluta ferðaþjónustunnar. Kjölfestufjárfestar eru Reykjavíkurborg og Icelandair Group. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðnu 6. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×