Innlent

Vörubíllinn gufaði upp hjá Bílasölu Guðfinns

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Appelsínuguli Benz-vörubíllinn hans Auðuns Þorgrímssonar er horfinn og hann vill fá hann aftur.
Appelsínuguli Benz-vörubíllinn hans Auðuns Þorgrímssonar er horfinn og hann vill fá hann aftur.
„Ég varð fyrir því óhappi að það var stolið frá mér vörubíl – í heilu lagi,“ segir Auðunn Þorgrímsson sem leitar nú vörubíls sem hvarf í síðustu viku.

„Bíllinn stóð á Bílasölu Guðfinns og hann var bara tekinn þaðan og hefur ekki sést meira,“ segir Auðunn. Vörubíllinn, sem sé af Benz gerð og hafi verið stolið aðfaranótt 29. maí, hljóti að vera einhvers staðar.

„Bíllinn er reyndar gamall en það eru verðmæti í honum. Hann er með krana og öllu saman,“ rekur Auðunn sem áætlar verðmæti vörubílsins um tvær milljónir króna. „Það var eiginlega komið kaup­tilboð í hann en ekki búið að ganga frá því.“

Aðspurður segir Auðunn þann eða þá sem stálu gamla Benzinum hafa þurft að brjóta upp stýrislásinn og tengja rafmagn framhjá til að koma bílnum í gang.

„Þetta gera engin börn. Það eru fullorðnir menn sem gera þetta,“ segir vörubílstjórinn sem telur þjófinn eða þjófana jafnvel eiga annan eins bíl og ætla að nýta hluti úr hans bíl í sinn eða jafnvel bara losa kranann frá bílnum. „Ég veit ekki hvað menn eru að pæla, það eru allir steinhissa á þessu.“

Að sögn Auðuns hafa starfsmenn bílasölunnar ekki lent í því fyrr að heilum vörubíl sé stolið af söluplaninu. „Svo vill svo illa til að þótt þar sé fullt af myndavélum þá hafði tölvan brunnið einhvern veginn yfir svo það eru engar myndir af þessu,“ segir hann.

Auðunn kveður upplýsingar um vörubílinn vera í öllum lögreglubílum og á öllum lögreglustöðvum á landinu.

„Þeir finna ekki neitt,“ segir Auðunn og biðlar til meðborgaranna um að hafa augun hjá sér. Hann er bjartsýnn á að árangur náist með liðsinni Fréttablaðsins og hefur ástæðu til.

„Fyrir fimm eða sex árum var stolið frá mér pallbíl sem var með stýrishúsi af báti aftan á. Þá kom ég til ykkar og þið settuð mynd af bílnum í blaðið og það bar árangur strax daginn eftir.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. júní

Bíllinn sem hvarf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×