Innlent

Erfitt að hætta á sjónum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Skipstjóri á nýjasta skipinu í fiskveiðiflota landsins segir mikið hafa breyst á þeim rúmu þremur áratugum sem hann hefur stundað sjómennsku. Tæknin hafi dregið úr einangrun á sjónum en áður ræddi hana við eiginkonuna í gengum talstöð. Hann bauð fólk velkomið um borð í skip sitt í dag í tilefni af sjómannadeginum.
 

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur víða um land í dag. Við Reykjavíkurhöfn var sérstök hátíðardagskrá og sjómenn voru heiðraðir í tilefni dagsins. Flestir þeirra stunduðu sjómennsku frá unga aldri og í áratugi. Fiskiskip landsins lágu bundin við bryggju í dag og sjómenn gerðu sér margir hverjir glaðan dag með fjölskyldum sínum. Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, bauð fólk velkomið um borð í skip sitt í dag. Víkingur er nýjasta skipið í fiskveiðiflota landsins og það næst stærsta. Skipstjórinn hefur mikla reynslu af sjómennsku. „Ég fór fyrst á sjó 1985 á Haraldi Böðvarssyni litlum togara sem þótti stór þá,“ segir Albert.
 

Hann segir mikið hafa breyst frá því hann fór fyrst á sjó. „Skipin hafa stækka. Það er mikil bylting það er að hafa internet og sjónvarpið. Íslenskt sjónvarp. Gríðarleg bylting fyrir okkur. Annars voru menn svo einangraðir. Síminn hefur til að mynda útbúið sérstaka sjónvarpsstöð fyrir sjómenn sem send er út í gegnum gervihnött og sjómenn geta þar nálgast íslenska dagskrá í meira mæli og fréttir Stöðvar 2. Albert segir að þegar hann fór fyrst á sjóinn hafi menn nýtt sér aðra tækni. „Þá höfðum við bara vídeóspólur og ekki mikil samskipti. Þá náttúrulega þurftu öll samskipti að fara í gegnum talstöð ef menn þurftu að hringja heim,“ segir Albert.
 

Öll aðstaða í skipinu er góð en þar eru til að mynda líkamsræktarsalur og gufubað. Algert segir misjafnt hversu langar vaktirnar um borð eru en þær lengstu geti tekið á.

„Þær geta verið góður sólarhringur. Einn og hálfur, tveir sólarhringar,“ segir Albert. Hann segir starfið halda í menn og erfitt sé að hætta á sjónum. „Þetta togar alltaf í mann. Þannig ef maður færi í land einhvern tímann þá væri maður bara alltaf á bryggjunni,“ segir Albert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×