Innlent

Endurnýja tölvukerfin á Alþingi fyrir lok 2020

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Ný tölvukerfi eiga að bæta vinnuumhverfið á Alþingi.
Ný tölvukerfi eiga að bæta vinnuumhverfið á Alþingi. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Stefnt er að því að endurnýja helstu tölvukerfi Alþingis og að verkinu verði lokið árið 2020. Elsta þingfundakerfið, atkvæðagreiðslukerfið, er að verða 25 ára, að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis.

„Kerfin hafa reynst vel en þau eru orðin mjög gömul. Það þarf að gera ný sem þjóna sama tilgangi en sem búa yfir fleiri möguleikum eins og til dæmis úrvinnslu og slíku. Það eru ýmsar lausnir sem við getum kannað,“ tekur Helgi fram.

Veittar voru 20 milljónir króna til verkefnisins í fyrra og sama upphæð var veitt í ár.

„Áform um endurnýjunina hófust fyrir tveimur árum. Það er gert ráð fyrir að það taki um fimm ár að fara í gegnum helstu kerfin eins og atkvæðagreiðslukerfið, þingfundakerfið, sem við köllum „Stýru“, skjalastjórnunarkerfið og fleira. Það er ákveðin verkáætlun í gangi sem byggir á því hvenær næði er til framkvæmda,“ segir Helgi sem bendir um leið á að endurnýjun vefs Alþingis hafi lokið í fyrra.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær farið verður í innkaup á nýjum kerfum en Ríkiskaup hafa þessa dagana kynnt þingfundakerfi fyrir mögulegum bjóðendum. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×