Innlent

Dauðum köttum fargað án vitundar eigenda

Þórdís Valsdóttir skrifar
Dýrahræ sem finnast í Hafnarfirði eru færð á þjónustumiðstöð bæjarins áður en þau eru grafin á stað sem kallaður er "Tippurinn“, fyrir ofan bæinn.
Dýrahræ sem finnast í Hafnarfirði eru færð á þjónustumiðstöð bæjarins áður en þau eru grafin á stað sem kallaður er "Tippurinn“, fyrir ofan bæinn. Nordicphotos/Getty
Ketti var fargað af starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar, án vitundar eiganda hans. Keyrt var á köttinn með þeim afleiðingum að hann drapst, örfáum húsum frá heimili hennar í síðustu viku.

Ásdís Björgvinsdóttir, eigandi kattarins, furðar sig á verklagi bæjarfélagsins. Kötturinn var örmerktur en ólarlaus.

Ásdís frétti af óhappinu hjá nágranna og hafði þá samband við lögregluna í tvígang og fékk að lokum þær upplýsingar að farið hefði verið með hræ kattarins í þjónustumiðstöð bæjarins. Starfsmaður þjónustumiðstöðvarinnar tilkynnir henni þá að hræinu hefði verið fargað.

Ásdís Björgvinsdóttir. Mynd/Aðsend
„Farið var með köttinn á stað fyrir úrgang og hann grafinn þar því hann var geymdur úti í poka á þjónustumiðstöðinni og krummi var farinn að narta í hann,“ segir Ásdís og bætti við að móðir hennar hafi fengið þau svör hjá þjónustumiðstöðinni að ekki væri mannskapur til þess að fara með hræ kattarins á dýraspítalann til að lesa af örmerkinu.

Árdísi Ármannsdóttir, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir starfsmenn bæjarins sækja dýrahræ og fara með á þjónustumiðstöð bæjarins í plastpoka þar sem þau eru geymd.

„Ef dýrin eru með merki um hálsinn með öllum viðeigandi upplýsingum þá er í öllum tilfellum hringt í eigendur,“ segir Árdís og bætir við að bærinn hringi ekki í eigendur þeirra dýra sem eru einungis merkt með örmerki.

Reykjavíkurborg er með samning við Dýraspítalann í Víðidal sem sér um að taka við hræjum dýra sem finnast í borginni. Ef dýrin eru örmerkt eða merkt á annan hátt þá eru eigendur dýranna látnir vita um örlög þeirra.

Árdís segir að kostnaður sé falinn í því að sækja dýrin og færa þau á Dýraspítalann og að greitt yrði fyrir þá þjónustu af samfélaginu í heild. „Það er erfitt ef við leggjum mannskap í það að fara með dýrin, þó það sé mjög falleg hugsun, þá fáum við líka gagnrýni frá þeim sem eru ekki kattaeigendur.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×