Innlent

Eldra fólk frekar með fordóma

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Juan Camilo og Anna Lára fræða Íslendinga um fordóma og fjölmenningu í verkefninu Vertu næs á vegum Rauða Krossins.
Juan Camilo og Anna Lára fræða Íslendinga um fordóma og fjölmenningu í verkefninu Vertu næs á vegum Rauða Krossins. Fréttablaðið/Vilhelm
„Fjölmenningarsamfélagið hefur stækkað ört síðustu ár og ungt fólk er vanara því að umgangast fólk af ólíkum menningarsvæðum,“ segir Juan Camilo Roman Estrada sem hefur ásamt Önnu Láru Steindal sinnt fræðslu um allt land á vegum Rauða krossins.

Þau eru verkefnisstjórar verkefnisins Vertu næs, um fordóma og fjölmenningu og nú þegar hafa þau rætt við um fimm þúsund manns. Eitt af því sem þau hafa tekið eftir er að eldra fólk hefur frekar fordóma fyrir ákveðnum hópum fólks sem sest að hér á landi.

Anna Lára segir fordóma eldra fólks helst beinast gegn múslimum og hælisleitendum. 

„Það er svolítið leiðinlegt að því eldri sem áheyrendurnir eru því líklegra er að við finnum fordóma. Við höfum hitt fólk sem er mjög sammála okkur og tekur fullan þátt í samtalinu. En svo kemur einhvers staðar fram að það telur ekki það sama eiga við um hælisleitendur og múslima,“ segir Anna Lára. „Þetta er það grátlegasta, það þarf að fræða fólk betur um þessa hópa,“ segir hún.

„Mér finnst við þurfa að efna til sérstaks átaks þegar kemur að múslimum því fólk tekur þennan hóp sérstaklega út,“segir Anna Lára.

Juan Camilo er frá Kólumbíu. Hann minnir á að fordómar séu hluti af almennri hugsun. „Enginn er laus við fordóma, það er mikilvægt að hafa það í huga. En við verðum að vera gagnrýnin á eigið hugarfar. Þegar við eldumst verðum við stífari í hugsun á meðan yngra fólk hefur tækifæri til að tengjast ólíku fólki án dóma. Það tengist jafnöldrum sínum í leikskóla og skólakerfinu, á jafningjagrundvelli,“ segir Juan. „Við bjóðum fyrirtækjum fyrirlestra og viljum endilega fræða fullorðið fólk betur um fordóma og fjölmenningu,“segir hann.

Hann segir yngra fólk helst þurfa að fræðast um dulda fordóma. „Stór hluti innflytjenda finnur fyrir duldum fordómum í sinn garð,“ segir Juan og segir auðvelt að uppræta slíka fordóma enda feli þeir frekar í sér hugsunarleysi eða skort á þekkingu en vilja til að særa og beita órétti.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. júní 2016








Fleiri fréttir

Sjá meira


×