Innlent

Hrygningarstofn þorsks ekki stærri í fjörutíu ár

Bjarki Ármannsson skrifar
Hafrannsóknarstofnun segir hryngingarstofn þorsks við Íslandsstrendur ekki hafa verið stærri í fjörutíu ár og verður aflamark fyrir næsta fiskveiðiár hækkað um fimm þúsund tonn.
Hafrannsóknarstofnun segir hryngingarstofn þorsks við Íslandsstrendur ekki hafa verið stærri í fjörutíu ár og verður aflamark fyrir næsta fiskveiðiár hækkað um fimm þúsund tonn. Vísir/GVA
Hafrannsóknarstofnun segir hryngingarstofn þorsks við Íslandsstrendur ekki hafa verið stærri í fjörutíu ár og verður aflamark fyrir næsta fiskveiðiár hækkað um fimm þúsund tonn.

Þetta kemur fram í skýrslu stofnunarinnar um ástand fiskistofna og aflahorfur fyrir komandi fiskveiðiár, sem kynnt var í dag. Nýliðun í hrygningarstofni þorsks er sögð fremur stöðug frá árinu 1998 og stækkun stofnsins því fyrst og fremst talin afleiðing minnkandi sóknar.

Gunnar Bragi Sveinsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, fagnar þessum tíðindum í tilkynningu til fjölmiðla og segir að ákvörðun um heildarafla fiskveiðiársins 2016/2017 verði væntanlega gefin út fyrir lok mánaðarins.

„Þetta eru vitanlega mjög góðar fréttir fyrir íslenskt samfélag og við getum horft björtum augum til framtíðar,“ segir Gunnar Bragi í tilkynningunni. „Flestir fiskistofnarnir við Ísland hafa á undanförnum árum verið að styrkjast jafnt og þétt og þessi árangur sannar svo ekki verður um deilt mikilvægi ábyrgrar veiðistjórnunar sem byggð er á vísindalegum grunni.“

Hrygningarstofnar gullkarfa og ufsa hafa sömuleiðis stækkað undanfarin ár en stofnar ýsu og síldar minnkað. Aflamark ýsu verður lækkað um 1,8 þúsund tonn en aflamark síldar lækkað um átta þúsund tonn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×