Innlent

Hjálmar Sveinsson: Hrafn þarf að fylgja lögum eins og aðrir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Formaður umhverfis- og skipulagsráðs segir að álit umboðsmanns borgarbúa varðandi óleyfisframkvæmdir Hrafns sé áminning fyrir borgina.
Formaður umhverfis- og skipulagsráðs segir að álit umboðsmanns borgarbúa varðandi óleyfisframkvæmdir Hrafns sé áminning fyrir borgina.
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir að álit umboðsmanns borgarbúa á aðgerðarleysi borgarinnar gagnvart óleyfisframkvæmdum Hrafn Gunnlaugssonar á Laugarnestanga sé áminning fyrir borgina. Verið sé að undirbúa viðbrögð borgarinnar.

Fjallað var um álit umboðsmanns á fundi umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar á fundi þess í gær þar sem umhverfis- og skipulagssviði var falið að koma með tillögur að næstu skrefum í málinu.

„Borgin fær þarna áminningu og það ber að taka því alvarlega,“ segir Hjálmar í samtali við Vísi.

Í áliti umboðsmanns er aðgerðarleysi Reykjavíkurborgar gagnvart óleyfisframkvæmdum Hrafns gagnrýnt harðlega. Þar segir að borginni beri að framfylgja ákvörðunum sínum frá árinu 2010 um að fjarlægja eigi þær byggingar og mannvirki sem Hrafn hefur reist á lóð sinni án tilskyldra leyfa. Sex árum síðar hefur lítið sem ekkert gerst í málinu.

Hjálmar á von á því að borgin þurfi að framfylgja ákvörðunum sínum frá árinu 2010, líkt og segir í áliti umboðsmanns. Málið sé þó flókið og fara þurfi nákvæmlega yfir hvað hafi verið reist í óleyfi og hvað ekki. Það sé eitthvað sem umhverfis- og skipulagssvið muni fara yfir.

„Þetta er flókið og erfitt mál en það er reyndar þannig að Hrafn er ekki eini Reykvíkingurinn sem hefur helgað sér stærra land en sér tilheyrir strangt til tekið,“ segir Hjálmar en ítrekar þó að Hrafn verði að fara að lögum og reglum eins og aðrir.

„Þessi saga er mjög sérstök og ég vil segja það að auki að þessir skúlpturar og garður hans er að mörgu leyti svolítið skemmtilegt en hann verður að hlíta lögum, reglum og tilmælum eins og aðrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×