Innlent

Mikilvægt að standa í fæturna gagnvart tilbúnum dópskuldum

Jakob Bjarnar skrifar
Ljóst er að dópskuldir ólögráða einstaklinga er verulegt vandamál og ekki liggur fyrir hvernig best er að takast á við slíkan vanda. Lögreglan hafnar því að mælt sé með því við fólk að það semji við fíkniefnasalana.
Ljóst er að dópskuldir ólögráða einstaklinga er verulegt vandamál og ekki liggur fyrir hvernig best er að takast á við slíkan vanda. Lögreglan hafnar því að mælt sé með því við fólk að það semji við fíkniefnasalana.
Lögreglan á Akureyri vill gera fáeinar athugsemdir við frétt Vísis frá því fyrr í dag, en þar var fjallað um dópskuldir ólögráða einstaklinga og hvernig bregðast skuli við þeim. Gunnar J. Jóhannsson lögreglufulltrúi segir að eitthvað hafi skolast til þegar sagt er að lögreglan mæli með því við foreldra að samið sé um slíkar skuldir.

Lögreglan aldrei sagt fólki að borga ákveðnar skuldir

„Á umræddum fundi þann 8. desember á s.l. ári sem vitnað er til í greininni er ekki allt rétt  sem þar kemur fram og haft er eftir lögreglumönnum sem á fundinum voru,“ segir í ábendingu Gunnars.

Á umræddum fundi héldu tveir fíkniefnalögreglumenn fræðsluerindi, tóku þátt í umræðum og svöruðu fyrirspurnum.

„Ekki var talað um að hægt væri að ná skuldum niður um helming og að fólki væri ráðlagt að borga skuldir sínar. Lögreglan hefur aldrei sagt fólki að borga ákveðnar skuldir,“ segir Gunnar.

Okurvextir og tilbúnar skuldir

Hann segir að á fundinum, eins og á fleiri slíkum, var spurt hvað foreldrar ættu að gera ef barn er komið í fíkniefnaskuldir? Svör fíkniefnalögreglumannanna voru að foreldrar þyrftu fyrst að fá frá börnum sínum hvort eitthvað væri til í umræddri skuld eða ekki.

„Ef skuldin væri tilbúin, eins og brenna vildi við í þessum heimi, eða ef búið væri að setja á hana okurvexti væri fólk venjulega að koma sér í verri stöðu með að greiða skuldina. Ef svo væri gert væri oft búin til ný skuld upp úr þurru þar sem vitað væri að þarna væri hægt að ganga auðveldlega að peningum. Því væri mjög mikilvægt að standa fast í fæturna gagnvart slíkum rukkunum.“

Fólk verður að eiga það við sig sjálft hvort það borgi

Gunnar heldur áfram og segir að málin vandist hins vegar stundum þegar barnið hafi sannarlega fengið fíkniefni afhent og ætli svo að greiða það seinna.

„Í þeim tilvikum væri ólíklegra að hætt yrði að innheimta skuldina og líklegra að henni yrði við haldið. Ef foreldrar greiddu þessar skuldir væri hins vegar hætta á að börn þeirra myndu eftir það halda áfram að koma sér í skuldir, vitandi að foreldrarnir myndu borga. Á fundinum, eins og fleiri slíkum, var sagt að í raun væri eina leiðin til að losna algjörlega við rukkanir að borga það  sem menn skulduðu, hætta að nota fíkniefni og koma sér út úr heimi þeirra.

Lögreglan segir fólki ekki hvort það eigi að borga eða ekki, fólk verður að eiga það við sig sjálft hvort það ákveði að borga fíkniefnaskuldir barna sinna. Lögreglan taki ekki þá ákvörðun fyrir fólk. Þá ákvörðun verði fólk sjálft að gera.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×