Innlent

Sala á laxveiðileyfum orðin svipuð og fyrir bankahrun

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Met sala er á veiðileyfum í laxveiðiár landsins og virðist salan vera að komast í svipað horf og hún var fyrir bankahrunið. Rekstrarstjóri laxveiðiár segir það hafa mikið að segja að erlendir veiðimenn séu farnir að koma á ný og þá eru fjármálafyrirtækin farin að hafa samband aftur.

Sala á veiðileyfum í laxveiðiám dróst töluvert saman eftir hrun og fundu rekstraraðilar ánna vel fyrir því. Leyfin geta kostað sitt eða allt frá nokkrum tugum þúsunda upp í hundruð þúsunda í dýrustu ánum.

„Það varð hrun mikið víðar en á Íslandi. Það varð samdráttur um allan heim og þess gætti og það voru erfiðleikar við að selja. En sem betur fer er þetta breytt og þetta er að komast svona í mjög góðan farveg núna. Þetta eru allavega samsetning á þessum hópum. Við erum að fá einstaklinga, við erum að fá vinahópa og svo fjölskyldur og einstaka fyrirtæki,“ segir Einar Sigfússon rekstrarstjóri Norðurár.

Einar segir að erlendir veiðimenn séu í auknu mæli farnir að koma aftur til landsins og það skipti miklu máli þegar kemur að sölu veiðileyfanna. Einn þeirra sem hefur verið að veiða í Norðurá í vikunni er Bretinn Ian Morris. Þetta er hans fyrsta heimsókn til Íslands. Hann segir veiðina hafa gengið vel og ætla að koma aftur til landsins.

Einar segir að þegar séu veiðileyfi uppseld í margar af bestu ám landsins í sumar og veiðileyfi farin að seljast fyrir næsta sumar. Í raun sé salan að komast í svipað horf og hún var fyrir hrun.

Aðspurður um fyrirtækin sem eru kaupa veiðileyfin segir Einar fjármálafyrirtæki þeirra á meðal. „Ég er svona aðeins farinn að heyra í þeim en það er ekki mikið. Þau mættu alveg koma meira en þetta er bara samt sem áður bara að byrja aðeins þau eru aðeins byrjuð að þefa af þessu,“ segir Einar.

Hann segir fjármálafyrirtækin hafa keypt veiðileyfi í töluverðu mæli fyrir hrun. „Ég vona kannski að fari nú ekki alveg í þann farveginn sem það var þá. Það var heldur bratt farið. Við vorum með þá bæði hér og í Haffjarðaránni en þeir eru ekki komnir aftur svona enda allt miklu hófstilltara og með allt öðrum brag heldur en var og ég held að fólk sé alveg sko áttað á því að það er skynsemin,“ segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×