Innlent

Fjögurra mánaða fangelsi fyrir ofbeldi gegn barnsmóður sinni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá Akureyri.
Frá Akureyri. vísir/pjetur
Karlmaður á þrítugsaldri var 7. júní síðastliðinn dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir líkamsárásir gegn barnsmóður sinni auk fíkniefnalagabrots og þjófnaðar.

Maðurinn var ákærður fyrir þrjár líkamsárásir gegn barnsmóður sinni og þáverandi unnustu. Árásirnar áttu sér allar stað á Akureyri á síðari hluta ársins 2014.

Í fyrsta lagi var honum gert að sök að hafa kýlt konuna í bringuna og ýtt við henni svo hún féll í jörðina. Í öðru lagi fyrir að hrinda henni í jörðina og sparka svo í hana þar sem hún lá eftir fallið. Þá á hann að hafa tekið hana hálstaki. Í þriðja lagi var honum gert að sök að hafa ýtt við henni í miðbæ Akureyrar, kýlt hana í bringuna og lagt hníf að hálsi hennar. Þá játaði hann að hafa haft undir höndum marijúana og að hafa stolið vínflösku úr ríkinu.

Þá var honum einnig gert að sök að hafa haft uppi hótanir gagnvart henni. Meðal annars átti hann að hafa sagt við hana „Ég ætla að drepa þig, þú veist ekki hversu mikið mig langar að drepa þig“ og „þú veist að ég er að fara í fangelsi og allan þann tíma sem ég mun vera inni ætla ég að reyna að finna útkomu á því hvernig ég á að drepa þig til að komast upp með það, þú munt hverfa án þess a enginn viti af.“

Maðurinn játaði brot sín að hluta. Til að mynda viðurkenndi hann að hafa hrint barnsmóður sinni og slegið hana en ekki með krepptum hnefa. Hins vegar þótti ekki sannað að hann hefði lagt hníf að hálsi hennar eða að hann hefði viðhaft akkúrat þessi orð. Sök fyrir þann hluta þótti ekki sönnuð.

Hinn sakfelldi á að baki nokkurn brotaferil. Árið 2010 hlaut hann sex mánaða skilorðsbundin dóm fyrir eignaspjöll. Árið 2011 var hann dæmdur á ný, og rauf með því skilorð, fyrir eignaspjöll en að auki fyrir þjófnað. Árið 2012 hlaut hann svo tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir nytjastuld. Að endingu hlaut hann árið 2014 þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir hnífstunguárás.

Í dómi héraðsdómara nú var tekið fram að brot þau sem ákært var fyrir nú hafi átt sér stað áður en dómurinn í nóvember 2014 féll. Það var metið ákærða til málsbóta að hann hefði játað brot sín að hluta og að á meðan afplánun hans stóð hafi hann stundað starf innan veggja fangelsisins „af dugnaði, samviskusemi og jákvæðni“.

Útilokað þótti að skilorðsbinda refsingu mannsins. Honum var að auki gert að greiða barnsmóður sinni 438.241 krónur og þrjá fjórðu málskostnaðar. Sú upphæð nemur tæplega 1,7 milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×