Innlent

Borgin borgar minnst

Sveinn Arnarsson skrifar
Krakkar úr Vinnuskóla Reykjavíkur að störfum við Árbæjarskóla fyrir þremur árum.
Krakkar úr Vinnuskóla Reykjavíkur að störfum við Árbæjarskóla fyrir þremur árum. Fréttablaðið/Anton Brink
Reykjavík greiðir börnum í vinnuskóla borgarinnar lægstu launin af öllum sveitarfélögum landsins. Börn í 10. bekk í Reykjavík fá sömu greiðslur og börn í 8. bekk í Vestmannaeyjum. Munur á hæstu og lægstu launum nemur 120 til 168 prósentum.

Þetta kemur fram í svörum sveitarfélaga sem borist hafa Fréttablaðinu um laun í vinnuskólum sveitarfélaganna. Á fjórða tug sveitarfélaga hafa svarað fyrirspurninni en fjölmörg minni sveitarfélög vítt og breitt um landið reka ekki svokallaða vinnuskóla. Athygli vekur einnig að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu virðast greiða unglingum sínum mun lægri laun að meðaltali en sveitarfélög í landsbyggðunum.

Snæfellsbær greiðir hæstu laun til starfsmanna vinnuskólans. Tíundubekkingar fá greiddar 1.359 krónur á klukkustund. Til samanburðar fá reykvísk börn 617 krónur á tímann. Eru reykvísk börn því ekki hálfdrættingar á við börn í Snæfellsbæ.

Mörg sveitarfélög greiða því laun undir lágmarkstaxta sem ASÍ hefur samið við SA um laun frá 15 ára aldri. Það er réttlætt með þeim rökum að um skóla sé að ræða þar sem börnum er kennt að vinna og að um félagsmálaúrræði sé að ræða. Hins vegar skýtur það skökku við að Vinnuskóli Reykjavíkurborgar er ekki undir skóla- og frístundaráði borgarinnar heldur rekinn innan umhverfis- og skipulagsráðs. Því má segja að borgin leggi lítið upp úr menntunarþætti vinnuskólans því tengingin við það svið er ekkert.

„Það er ekkert keppikefli hjá okkur að greiða lægstu launin,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. „Við verðum hins vegar að sýna ráðdeild í rekstri. Laun í vinnuskólanum hafa hækkað um 13,7 prósent frá því í fyrra því laun í vinnuskólanum fylgja launaþróun hjá borginni.“

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir þetta til marks um hvað borgin sé illa rekin. „Það er leiðinlegt að við skröpum botninn og bjóðum í ofanálag ekki áttunda bekk upp á vinnuskóla,“ segir Halldór. „Þetta undirstrikar að borgin er á leið að verða fátækt sveitarfélag því hún er illa rekin. Borgin hefur ekki lengur efni á að veita borgarbúum góða þjónustu.“

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu greiða lág laun sé mið tekið af miðgildi launa sveitarfélaganna. Til að mynda raða Hafnarfjörður og Garðabær sér í neðstu sætin í öllum aldursflokkum. Reykjavík greiðir lægstu launin fyrir börn í 9. og 10. bekk og býður ekki upp á vinnuskóla fyrir börn í 8. bekk og er Reykjavík því eina sveitarfélagið af þeim sem reka vinnuskóla sem býður ekki upp á vinnu fyrir þann hóp.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 20. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×