Innlent

Eðlilegt að rýmka heimildir útlendinga til að stofna fyrirtæki

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Það veldur vonbrigðum hversu afdráttarlaust frumvarp til nýrra útlendingalaga er í banni sínu við sjálfstæðri atvinnustarfssemi útlendinga sem ekki hafa ótímabundið dvalarleyfi, í raun þvert á yfirlýsta stefnu um samkeppnishæfni landsins og norræn fordæmi.

Þetta segir Pawel Bartoszek stærðfræðingur sem hefur rýnt í frumvarpið, en það er mjög umdeilt ef marka má innsendar umsagnir.

Atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki er áfram háð miklum kvöðum í frumvarpinu. Atvinnuleyfið er bundið hámarkstíma og starfsmenn þurfa að fara úr landi í að minnsta kosti tvö ár eftir að atvinnuleyfi lýkur áður en þeir geta komið aftur til landsins. 

Pawel, sem er íslenskur ríkisborgari og flutti hingað til lands átta ára gamall árið 1988, sendi umsögn um frumvarpið til allsherjar- og menntamálanefndar og var í kjölfarið boðaður á fund nefndarinnar. Pawel segir að stjórnvöld gætu, ef þau vildu, gert ákveðnum hópum fólks auðveldara um vik með að koma til landsins vegna vinnu eða náms á grundvelli frumvarpsins verði það að lögum. Hins vegar sé það í formi undantekninga í frumvarpinu. 

„Það eru stígin ýmis ágæt lítil skref með frumvarpinu en ef heildarmarkmið löggjafans um að auka samkeppnishæfni Íslands og auka réttindi útlendinga sem hingað koma á að nást þá þarf að ganga töluvert lengra,“ segir Pawel um frumvarpið. 

Í umsögn Pawels um frumvarpið segir: „Einnig veldur það vonbrigðum hversu afdráttarlaust frumvarpið er í banni sínu við sjálfstæðri atvinnustarfsemi útlendinga sem ekki hafa ótímabundið dvalarleyfi, í raun þvert á yfirlýsta stefnu um samkeppnishæfni landsins og norræn fordæmi. (...) Ísland er sér á báti meðal Norðurlanda að veita mönnum ekki dvalarleyfi vegna eigin atvinnurekstrar.“

Tilvitnun lýkur. 

Hver er munurinn á Evrópubúum og öðrum útlendingum?

Þegar rætt er um útlendinga í skilningi þessara ákvæða í frumvarpinu er verið að vísa til einstaklinga af öðru þjóðerni en því 31 ríki sem myndar innri markað ESB og EES-svæðisins. Þá má spyrja, er einhver munur á frumkvöðlum og vinnuafli almennt frá þessum ríkjum og ríkja utan svæðisins? Hvers vegna eru svona miklar takmarkanir á því að fólk sem vill skapa verðmæti á Íslandi, til dæmis með stofnun fyrirtækja, fái að starfa og búa hér?

Það er vegna þess að reglan um frjálst flæði vinnuafls gildir bara á innri markaðnum. Hins vegar hefur stór hópur fólks utan Evrópu aðlagast Íslandi, stofnað hér fyrirtæki og skapað verðmæti. Oft á grundvelli reglna um fjölskyldusameiningu. Nægir þar að nefna mikinn fjölda veitingahúsaeigenda og annarra frumkvöðla. Velta má fyrir sér hver veitingahúsaflóran á Íslandi væri ef hingað hefðu bara komið Evrópubúar til að hefja atvinnurekstur en ekki íbúar frá Asíuríkjum og ríkjum við Persaflóa, svo dæmi sé tekið.

Ef þessar heimildir yrðu rýmkaðar þannig að útlendingum utan Evrópu væri heimilað að stofna hér fyrirtæki þá leiðir það af eðli máls að það myndi auka verðmætasköpun og þar með auka hagvöxt, eða hvað?

„Jú, klárlega. Annað sem fólk verður að hafa í huga er að víða erlendis eru innflytjendur mjög fyrirferðamiklir í eigin rekstri vegna þess að þeir mæta lokuðum dyrum þegar kemur að hinum almenna vinnumarkaði. Þarna er tækifæri fyrir þá að verða sínir eigin herrar. Það væri mjög gott að gefa fólki aukin tækifæri til að stofna sitt eigið fyrirtæki á Íslandi án þess að þurfa að bíða í fjögur, fimm, sex ár eftir ótímabundnu dvalarleyfi eins og staðan er í dag,“ segir Pawel Bartoszek. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×