Innlent

Hafa selt 8 lóðir undir atvinnustarfsemi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ferðaþjónustan hefur leitt vöxtinn í atvinnuhúsnæði undanfarin misseri, að sögn Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík.
Ferðaþjónustan hefur leitt vöxtinn í atvinnuhúsnæði undanfarin misseri, að sögn Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík. Vísir/Ernir
Gríðarleg eftirspurn ríkir eftir atvinnuhúsnæði í Reykjavík um þessar mundir. Miklar framkvæmdir eru því fram undan. Fjörutíu og fjórum milljörðum verður varið í núverandi áform um hóteluppbyggingu, en einnig er lögð mikil áhersla á uppbyggingu atvinnuhúsnæðis undir þekkingarstarfsemi.

Á síðustu tólf mánuðum er borgin búin að selja átta lóðir undir atvinnustarfsemi, sem er mun meira en í mörg ár þar á undan. Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á fundi Reykjavíkurborgar í gærmorgun. „Ferðaþjónustan hefur leitt vöxtinn í atvinnuhúsnæði undanfarin misseri, en aðrar greinar eru farnar að taka við sér,“ sagði Dagur.

Á fundinum benti Dagur á að þrátt fyrir mikla umræðu um byggingu hótela sé byggingariðnaðurinn að stofni til að byggja íbúðir sem hann segir mjög jákvætt. „Öll þessi hótelverkefni sem fóru í gang eru einn tíundi af því sem fór í gang í íbúðarhúsnæði,“ sagði Dagur.

Enn eru atvinnulóðir til sölu í Reykjavík, má þar nefna Hlíðarenda, Lambhagaveg, Gylfaflöt og Krókháls 7a.

Næstu svæði sem verða byggð upp eru meðal annars Suður-Mjódd, Köllunarklettur, og Esju­melar. Faxaflóahafnir eru að gera nýja hafnargarða í Sundahöfn, nýtt deiliskipulag er á Sprengisandi og skipulagssamkeppni mun fara af stað í Gufunesi, þar sem RVK-Studios hefur keypt fjórar fasteignir.



Greinin birtist í Fréttablaðinu 21.maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×