Innlent

Altjón eftir eld í iðnaðarhúsnæði

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. Vísir/Lillý Valgerður
Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað út ásamt lögreglu rétt eftir klukkan þrjú í nótt vegna elds sem kom upp í iðnaðarhúsnæði við Vesturvör í Kópavogi.

Samkvæmt upplýsingum frá varðstöð slökkviliðsins í Skógarhlíð tókst að slökkva eldinn um klukkan kortér í fimm en enn er töluverð vinna eftir á vettvangi.

Frá vettvangi í morgun.Vísir/Lillý Valgerður
Eldurinn kom upp í húsnæði lyftaraþjónustunnar Hraðberg og var einn starfsmaður þar inni þegar eldurinn kom upp. Hann varð þó fljótlega eldsins var og náði að koma sér út í tæka tíð og slasaðist ekki.

Að sögn slökkviliðsins var eldurinn mjög mikill og olli altjóni á húsnæði Hraðbergs ásamt því að valda miklu tjóni á húsnæði tveggja annarra fyrirtækja. 

Uppfært 07.30: Um fjörutíu manns voru á vettvangi þegar mest lét en flestir hafa nú verið kallaðir heim. Einn dælubíll með fimm mönnum verður þó áfram á staðnum fram eftir morgni að fylgjast með.

Slökkviliðsmenn hafa náð að fara inn í húsið nú í morgun en eldsupptök eru þó enn ókunn.

Slökkviliðsmenn á níunda tímanum í morgun.Vísir/Lillý Valgerður
Miklar skemmdir urðu á húsnæðinu.Vísir/Lillý Valgerður
Eldurinn kom upp í iðnaðarhúsnæði við Vesturvör í Kópavogi.Kort/Loftmyndir.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×