Erlent

Beit stykki úr tungu nauðgarans

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lögreglann bar kennsl á manninn eftir blóðrannsókn.
Lögreglann bar kennsl á manninn eftir blóðrannsókn. vísir/getty
Nítján ára frönsk stúlka varðist nauðgun síðastliðinn sunnudag með því að bíta hluta tungunnar úr árásarmanni sínum. Maðurinn var handtekinn í fyrradag og hefur verið ákærður fyrir tilraun til nauðgunar. Sagt er frá á ladepeche.fr.

Atburðurinn átti sér stað í borginni Toulouse. Stúlkan var á leið heim til sín og hafði á tilfinningunni að einhver væri að elta hana. Þegar hún kom að lyftunni, í húsinu þar sem hún býr, gekk maðurinn upp að henni og spurði hvort hún vildi stunda kynlíf með honum.

Viðbrögð mannsins, sem er 24 ára gamall, við afdráttarlausri neitun stúlkunnar voru að stökkva á hana og reyna að afklæða hana. Stúlkan streittist á móti í upphafi en ákvað síðan að leyfa árásarmanni sínum að kyssa sig.

Það tækifæri nýtti hún með því að bíta í tungu hans og gott betur því hún beit stórt stykki úr tungunni. Maðurinn flúði við það af vettvangi. Hann var handtekinn þremur dögum síðar en lögreglan bar kennsl á hann með því að rannsaka blóð úr honum sem fannst á vettvangi. Maðurinn bíður nú réttarhalda.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem sambærileg varnaraðferð kemst í fréttirnar en hið sama átti sér stað í Suður-Karólínu ríki í Bandaríkjunum í október í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×