Innlent

Segja íslenskar verslanir henda sorglega miklu magni matvæla

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Hönnunarnemar við Listaháskóla Íslands hafa undanfarið reynt að vekja athygli fólks á matarsóun matvöruverslana með því að stilla upp matvælum sem fundist hafa í ruslatunnum fyrir framan verslanir í Reykjavík. Þau segja að sorglega mikið magn matvæla, sem enn séu í fínu ástandi, endi í ruslatunnum.

Nemendurnir hafa síðustu vikur skoðað í ruslatunnur nokkurra matvöruverslana og bakaría í Reykjavík og tekið myndir af því sem þar er að finna.

„Við erum að tala um að þriðjungur af öllum mat sem er framleiddur endar í ruslinu og meira en níutíu prósent af því fer í urðun. Í Bandaríkjunum er þetta nær fjörtíu til fimmtíu prósentum og það er ekkert ólíklegt að við séum frekar þar,“ segir Björn S. Traustason. Hann bendir á að stór hluti matarins sé innfluttur. 

„Það er svo sorglegt að þessi matur fer í svo mikið ferðalag til að koma til okkar og svo endar hann í ruslinu,“ bætir Hulda Einarsdóttir við. 

Forrannsókn sem Landvernd gerði á matarsóun heimila í Reykjavík á síðasta ári bendir til að um 5.800 tonnum af mat og drykk sé hent af reykvískum heimilum árlega. Þetta samsvarar að minnsta kosti fjórum komma fimm milljörðum króna. Samkvæmt mælingum inn á sautján heimilum hendir hver einstaklingur um 48 kg á ári sem gerir um 150 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu.

Hulda segir það hafa verið ljóst að heimilin hentu mikið af mætvælum en að það hafi komið sér á óvart hve miklu sé hent beint úr matvöruverslunum. 

„Ég verð að segja það. Þetta er ekki ónýtur matur, meirihlutinn af þessu er í fínu lagi. Það er kannski eitt epli ónýtt og þá er öllum pakkanum hent,“ segir hún.

En hvað getur fólk gert til að koma í veg fyrir matarsóun?

„Við getum keypt bara það sem við þurfum, kaupa minna og muna eftir því sem við eigum. Gera lista yfir það sem við kaupum og það sem við hendum líka. Ég held að það geti verið svolítið sjokkerandi fyrir okkur persónulega, að gera lista yfir það sem við hendum,“ segir Hulda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×