Innlent

Þolendur eineltis hrekjast úr starfi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þolendur eineltis hrekjast oft úr starfi en gerendur halda áfram að vinna á vinnustaðnum.
Þolendur eineltis hrekjast oft úr starfi en gerendur halda áfram að vinna á vinnustaðnum. Vísir/Getty
Þolendur eineltis á vinnustöðum leita sér seint aðstoðar og er reynslan sú að þeir hrekjast oft af vinnustaðnum á meðan gerandinn heldur áfram að starfa þar. Formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga segir atvinnurekendum oft finnast erfitt að takast á við eineltismál en málin séu vandamál allra á vinnustaðnum.

Vinnueftirlitið og Velferðarráðuneytið standa í fyrramáli á Grand hóteli fyrir kynningu á endurskoðaðri reglugerð um aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sem samþykkt var í lok síðasta árs.

Ein af þeim sem heldur erindi á morgun er Maríanna Helgadóttir formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga. Maríanna ætlar í erindi sínu að fjalla um aðkomu og sýn stéttarfélags að þessum málum. Hún segir þolendur eineltis oft leita sér seint aðstoðar.

„Það eru einstaka aðilar sem koma til okkar. Þetta eru kannski ekki mörg tilvik en oft eru tilvikin mjög langt gengin þegar þau koma til okkar. Þannig að oft hefði maður viljað vita af því fyrr að  viðkomandi aðili væri í þessari aðstöðu. Síðan þegar fólk er að koma þá er það í raun og veru búið að gefast upp á aðstæðunum,“ segir Maríanna og að fólk sé þá í raun aðeins að biðja um hjálp við að komast út af vinnustaðnum.

Hún segir að niðurstaðan verði oft að þolandinn hrektist af vinnustaðnum á meðan að gerandinn heldur áfram í sínu starfi. „Ég hef líka orðið vör við það að um leið og einn fer þá er oft, ef það er gerandi á staðnum, þá kemur bara næsti aðili til mín. Þannig að þetta verður svona raðeinelti. Þannig að vandamálið fer ekkert af vinnustaðnum. Þolandinn fer, gerandinn er eftir og næsti lendir fyrir barðinu á viðkomandi,“ segir Maríanna.

Þá segir hún eineltismál jafnan hafa áhrif á alla á vinnustaðnum. „Þetta leggst illa á alla. Bæði atvinnurekandanum finnst erfitt að takast á við þetta og þolandanum líður alveg rosalega illa,“ þá segir Maríanna gerandanum hljóti líka að líða illa. Þannig hafi eineltismálin áhrif á alla aðila og þar með vandamál allra á vinnustaðnum. 


Tengdar fréttir

Þolandi þorir ekki enn að fara í skólann

Líkamsárás gegn unglingsstúlku telst upplýst. Mál gerenda á borði barnaverndarnefnda og lögreglu. Engar upplýsingar fást hjá skólanum þar sem stúlkurnar stunda nám. Eineltissérfræðingur vill beina sjónum að gerendum og uppræta hegðu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×