Innlent

Maður klagar ekki skipstjórann

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Heimir Maríuson kvartaði undan einelti í starfsmannakönnun og segir það ekki hafa verið auðvelt skref. Það var þó erfiðara að fá engin viðbrögð frá fyrirtækinu við kvörtuninni.
Heimir Maríuson kvartaði undan einelti í starfsmannakönnun og segir það ekki hafa verið auðvelt skref. Það var þó erfiðara að fá engin viðbrögð frá fyrirtækinu við kvörtuninni. Fréttablaðið/anton brink
Heimir Maríuson er glaðbeittur, orkumikill og skrafhreifinn maður á sextugsaldri. Hann starfar um þessar mundir á dekkjaverkstæði eftir að hafa kvatt sjóinn um áramótin.

„Mér fannst forréttindi að vera á sjó. Það er ekkert sem toppar það að sigla í kringum landið og horfa á það frá sjó. Ég hef aldrei kviðið því að stunda sjómennskuna sem slíka eða leiðst hún,“ segir Heimir, fyrrverandi sjómaður til margra ára. Starfsgreinin hefur verið flokkuð með þeim hættulegustu í heimi sökum þess að vinnuaðstæður eru erfiðar og mikil hætta er á slysum. Sjómennskan hefur frá öndverðu verið tákn karlmennsku á Íslandi. Allt tal sem túlka má sem viðkvæmni hefur verið afgreitt sem væl á altari karlmennskunnar. Í því samhengi má nefna að Heimir hefur engan áhuga á að frásögn sín komi út eins og kvart eins og hann orðar það.

Heimir starfaði lengst af sem kokkur á uppsjávarskipi hjá HB Granda en missti starfið í skipulagsbreytingum.

„Ég vissi að ég færi ekki í gegnum síðasta niðurskurð hjá útgerðinni, maður vissi það og var búinn að sætta sig við það. Meira að segja þegar ég fékk það loks staðfest þá hljóp ég bara um gólf og sagði við konuna: „Jess.“ Ég var tilbúinn að hætta þessu.“

Sjómennskan er ekkert grín, söng Vilhjálmur Vilhjálmsson, fyrir mörgum áratugum. Þó er aðeins nýlega sem umræðan um einelti á sjó opnaðist fyrir alvöru. Myndin tengist fréttinni ekki beint.Vísir/Vilhelm
Ástæðan fyrir létti Heimis var viðmót yfirmanna á skipinu, bæði skipstjóra og stýrimanns, sem hafði djúpstæð áhrif á Heimi og lífsgleði hans. Heimir er einn fjölmargra sjómanna sem hafa upplifað einelti á vinnustað en nýleg rannsókn um lífsánægju sjómanna leiðir í ljós að einelti virðist algengara meðal sjómanna en hjá öðrum starfsstéttum. Könnunin var hluti af lokaverkefni Salóme Rutar Harðardóttur, íþrótta- og heilsufræðings, í meistaranámi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. 38,9 prósent þeirra sjómanna sem tóku þátt sögðust hafa orðið fyrir eða upplifað einelti eða áreitni um borð á fiskveiðiskipi hálfu ári áður en könnunin var gerð.

Fálæti, útilokun og niðurlæging

„Það er mikið um einelti, þar sem það getur þrifist þar er það,“ staðfestir Heimir. „Ef skipstjórinn tekur á því strax þá er hægt að koma í veg fyrir það en ef skipstjórinn og stýrimaðurinn eru gerendur þá er engin leið út. Nema bara að segja upp. Ekki klagar maður skipstjórann, hvað þá stýrimanninn í skipstjórann. Það þýddi ekkert, ég ætlaði ekki að missa vinnuna.“

Eineltið sem Heimir varð fyrir af hálfu skipstjórans lýsti sér í fálæti, útilokun og í því að skipstjórinn talaði títt niður til hans. Þá segir hann að erfitt hafi verið að fá svör við einföldum spurningum, til að mynda um hvenær maður yrði boðaður til skips eða hvenær skipið kæmi í höfn. Nokkrir samstarfsmenn Heimis segja sömu sögu.

Heimir var sáttur við starfið á sjónum en viðmót yfirmanna gerðu honum lífið leitt. Vísir/Anton Brink
„Manni var ekki svarað og varla heilsað. En ef maður var við þriðja mann þá gat hann verið hrókur alls fagnaðar, blaðrað og blaðrað. Hann fór í svo mikið manngreinarálit. Ef hann hefði verið svona við alla þá hefði þetta verið allt öðruvísi. En það voru alltaf sömu mennirnir sem fengu ekki svörin, ákveðnir sem voru ekki í náðinni hjá honum.“

Heimir lærði hvernig rétt væri að haga sér til þess að þóknast yfirmanninum. „Þegar maður veit hvernig hann hugsar þá veistu hvað þú mátt gera og hvað þú mátt ekki gera. Þú bara lærir. Ég var alltaf kurteis því ég vildi ekki að hann sæi að ég væri fúll, þá hefði hann kannski eitthvað á mig. Reif aldrei kjaft og reyndi að virka alltaf hress og kátur og bjóða brosandi góðan daginn þó ég fengi ekki svar. Ég reyndi stundum að forðast að vera nálægt honum en samt ekki sýna að ég væri hræddur við að tala við hann.“

Stýrimaðurinn var aftur á móti dónalegri, gerði grín að mönnum og ógnaði þeim. „Skipstjórinn hélt hlífiskildi yfir honum og hló með honum. Hann var kannski að rakka einhvern niður með látum og það var bara þannig, svo gat hann hlegið með skipstjóranum. Stýrimaðurinn var miklu meiri ruddi.“

Starfsfélagi rekinn án ástæðu

Framkoma skipstjórans olli starfs- og afkomuóöryggi hjá Heimi sem var stöðugt hræddur um að verða rekinn. Sá ótti jókst eftir að skipstjórinn rak einn skipverja að því er virtist án ástæðu. „Hann rak einn bara skyndilega. Hringdi í hann og sagði að útgerðin væri að skera niður hjá sér, en þegar sá maður hafði samband við útgerðina þá var það ekkert rétt. Eftir það stirðnaði ég. Maður er með heimili og þurfti að standa við sínar skuldir,“ útskýrir Heimir en hann var afar sáttur við þau laun sem hann fékk sem sjómaður. Það hafði áhrif á það hversu lengi hann lét framkomu mannanna yfir sig ganga.

„Maður var alltaf skíthræddur um hvort maður fengi að fara með í næstu ferð. Þetta níðir mann niður sálarlega. Manni fannst maður í rauninni bara ekki vera neitt. Það var alltaf eins og hann væri að spá í hvort hann ætti nokkuð að vera að hafa mann áfram.“

Heimir segir frá því að til að mynda hafi skipstjórinn ákveðið að fara einum starfskrafti færri í loðnutúr þegar einn forfallaðist. „Bara svo ég fengi ekki að fara með. Mér fannst það alveg skelfilegt því að það þýddi beina tekjurýrnun fyrir mig. Menn voru að fá lausatúra og hoppa inn í. Svo gat hann látið þveröfugt við þá sem voru vel inn undir hjá honum. Einu sinni vorum við að fara í hrognatúr, vorum fjórtán menn, en þá bætti hann einum við sem rýrði okkar hlut.“

Kvörtun um einelti talin nöldur

Heimir gagnrýnir harðlega viðbragðsleysi HB Granda. Hann kvartaði í þremur formlegum könnunum yfir viðmóti yfirmanna sinna en heyrði aldrei frá yfirstjórn útgerðarinnar. Þá fundaði hann með starfsmannastjóra nýlega að eigin frumkvæði, skýrði sína hlið og í kjölfarið fékk hann þau skilaboð að unnið yrði með málið í framtíðinni. „Það er það sem ég er að hjálpa þeim með núna með því að segja mína sögu. Það var ekki auðvelt að vera sá sem kvartaði í þessum könnunum en ég hugsaði bara: „Skítt með það, ég segi bara hreint út hvernig mér líður.“ En svo heyri ég ekkert frá þeim. Þetta er í raun og veru bara talið nöldur. Þó að manni líði eins og andskotanum. Þú tapar svo mikilli gleði úr lífinu, koðnar allur niður og ferð inn í þína kúlu.“ Upplifun Heimis var sú að það skipti útgerðina ekki máli hvernig honum liði í vinnunni. Sérstaklega sárt þykir Heimi að hugsa til félaga síns á sama skipi sem fór í þriggja mánaða veikindaleyfi eftir að hafa lent sérstaklega illa í skipstjóranum. Sá starfaði meira með skipstjóranum, uppi á dekki, en Heimir vann í skjóli eldhússins. Samstarfsfélaginn sneri ekki aftur fyrr en hann fékk pláss á skipi með öðrum skipstjóra.

Heimir stígur fram og segir sögu sína en segist engan veginn vilja láta vorkenna sér. Það sé ekki markmiðið.Vísir/Anton
„Þegar hann lendir í þessu þá var ég búinn að láta vita af eineltinu. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta. En það var ekkert gert, enginn sem talaði við mig eða reynt að fara ofan í kjölinn á þessu. Það hefði þurft að koma mönnunum saman og reyna að ná sáttum. Það er það sem stingur, að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir áfallið sem hann varð fyrir. Það vissu allir á skipinu af þessu og svo var þetta farið að kvisast út um flotann. Að maður hefði orðið fyrir alvarlegu einelti. Þetta er eins og lítil fjölskylda, við sofum þétt hver upp við annan og vitum allt sem er í gangi. Ef maður prumpar þá verðurðu var við það. Þess vegna finnst mér að fyrirtækið eigi að gera eitthvað. Það er svo gjörsamlega glórulaust að hunsa það að staðan sé svona. Þeir virðast ekki gera sér nokkra grein fyrir því hvað þetta fer illa með menn eða þá að þeim er alveg sama. Ég upplifi það þannig, að þeim sé bara skítsama.“

Fleiri í sömu sporum

Sem fyrr segir var Heimir feginn að losna úr félagsskapnum nú um áramótin, hann hafði lagst yfir sín mál, farið til sálfræðings og opnað augun fyrir því að framkoma skipstjórans væri ekki hans sök. Hann segir hins vegar erfitt að sætta sig við að ekkert hafi verið rætt við yfirmennina.

„Ég var alveg tilbúinn að labba þarna burt sáttur. Ég hefði viljað fá staðfestingu á að það hefði verið tekið á þessu. En mér finnst vanvirðingin halda áfram í skeytingarleysi fyrirtækisins.“

Heimir er allur annar maður í dag. „Ég var byrjaður að vinna í mér áður en ég hætti en svo lagaðist þetta helling þegar ég losnaði frá honum. Það bara léttir yfir manni. Ég var alltaf svo lífsglaður og það er að koma aftur.“

Ástæðan fyrir að Heimir ákvað að stíga fram var umfjöllun Fréttablaðsins í síðasta mánuði um það hversu algengt það er að sjómenn glími við vanlíðan í starfi vegna eineltismála. Tíðarandinn hefur breyst á undanförnum árum og karlmenn hvattir til þess að tjá tilfinningar ekki síður en konur.

„Það er alls ekki næg umræða um einelti sjómanna í samfélaginu. Þetta hefur verið felumál í fleiri ár. Ég vil opna mig um mína sögu því að það er enginn að fara að segja mér að það sé ekki að minnsta kosti einn sjómaður þarna úti sem hefur upplifað það sama og ég. Og ég vil að fyrirtækið beri ábyrgð. Það eru ekki rétt skilaboð fyrir þá sem starfa enn hjá fyrirtækinu að það þýði ekki að kvarta. Hver mun kvarta ef það er greinilega ekki tekið á málunum? Ef ég get breytt ástandinu, þó ekki sé nema fyrir einn eða tvo eða þrjá, þá er það nóg fyrir mig.“

HB Grandi er stórt fyrirtæki en hjá því starfa mörg hundruð manns.Vísir/GVA
HB Grandi fagnar umræðu um einelti

HB Grandi hefur síðan árið 2013 unnið samkvæmt metnaðarfullri starfsmannastefnu. Blaðamaður heimsótti fyrirtækið sem er staðsett úti á Granda og fékk fund með starfsmannastjóra, deildarstjóra Uppsjávardeildar og fulltrúa frá Attentus, sem sér um kannanirnar sem gerðar eru á meðal starfsmanna. Þau taka eineltismál alvarlega en viðurkenna að fyrir árið 2013 hafi þessi mál ekki verið tekin jafn föstum tökum.



„Okkur þykir mjög miður að starfsmaður frá okkur lendi í þessu. En jafnframt mjög gott að umræða um þessi mál eigi sér stað,“ segir Garðar Svavarsson, deildarstjóri Uppsjávardeildar hjá HB Granda. „Það hefur orðið vakning í samfélaginu um þessi mál. Á síðustu árum hefur verið lögð rík áhersla á starfsmannamál hér í fyrirtækinu.“ 

HB Grandi vinnur starfsmannamál sín í samstarfi við Attentus, fyrirtæki sem sér um mannauð og ráðgjöf. Inga Björg Hjaltadóttir hjá Attentus segir að hún telji fyrirtækið taka á öllum málum sem koma upp og geta varðað einelti.

„Við viljum virkilega fá svona mál til meðferðar og viljum ekki hafa svona aðstæður á vinnustaðnum. Við tökum öll svona mál alvarlega.“ Starfsmannastefnan er kynnt öllum starfsmönnum og þá liggja fyrir verkferlar sem taka við ef upp kemur grunur um eineltismál. Verkferlarnir eiga að vera starfsmönnum kunnir samkvæmt þeim Garðari og Ingu. Þá hafa þau á undanförnum árum unnið forvarnarstarf þegar kemur að eineltismálum, í formi samskiptavinnustofa og stjórnendanámskeiða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×