Erlent

Duterte líklegast nýr forseti Filippseyja

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Útlit er fyrir að hinn óhefðbundni Rodrigo Duterte sé nýr forseti Filippseyja. Helsti andstæðingur hans hefur lýst honum sem sigurvegara kosninga sem fram fóru þar í landi í dag. Eftir að um 80 prósent atkvæða höfðu verið talin var Duterte með um 13,2 milljónir atkvæða, sem var um 5,5 milljónum meira en næsti frambjóðandi.

Duterte hefur notið hylli fyrir loforð sín um að taka harkalega á glæpum og fátækt í landinu. Meðal annar hefur hann lofað að drepa glæpamenn. Hann hefur hótað því að taka völdin í eigin hendur ef þingmenn hlýði honum ekki og hefur margsinnis montað sig af Viagra-studdu kvennafari sínu.

Hann er 71 árs gamall og hefur lengi verið borgarstjóri borgarinnar Davao, þar sem hann hefur verið sakaður um að hafa gert út morðsveitir.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni lofaði Duterte stuðningsmönnum sínum á laugardaginn að binda enda á glæpi í landinu á sex mánuðum.

„Gleymið lögum um mannréttindi. Ef ég kemst í forsetahöllina mun ég gera slíkt hið sama og ég gerði sem borgarstjóri. Þið eiturlyfjasalar, ræningjar og iðjuleysingar, ættuð að koma ykkur á brott, því sem borgarstjóri myndi ég drepa ykkur,“ sagði Duterte.

John Oliver tók Duterte fyrir í þætti sínum í gær og kallaði hann meðal annars skrímsli og Trump austursins. Sjá má brot úr þættinum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×