Erlent

Sjö látnir eftir að óviðurkennd íbúðablokk hrundi til grunna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá björgunaraðgerðum í gærkvöldi.
Frá björgunaraðgerðum í gærkvöldi. vísir/ap
Í það minnsta 7 eru látnir og 121 er slasaður eftir að sex hæða bygging hrundi til grunna í höfðuborg Keníu í gærkvöldi.

Íbúðablokkin stóð í fátækrahverfi í Naíróbí en töluverð rigning var í borginni í nótt. Þá var einnig mikill vatnselgur á götum og flæddi inn í kjallara.

Björgunarmenn þustu á vettvang og reyndu að ná fólki út úr rústunum. Langan tíma tók að koma nauðsynlegum björgunarbúnaði á vettvang vegna umferðarteppu sem myndast hafði vegna flóðanna. Nú er regntímabil í Keníu sem alla jafna stendur yfir í apríl og maíl.

Þetta er önnur byggingin sem hrynur í borginni á árinu. Yfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að rýma ekki byggingar sem úrskurðaðar hafa verið óíbúðarhæfar. Mikil eftirspurn er eftir húsnæði í höfuðborginni og hefur fólk neyðst til að hýrast í hreysum sem þeim sem hrundi í gærkvöldi. Talið er að meirihluti íbúa höfuðborgarinnar, sem eru 4 milljón talsins, búi í fátækrahverfum.

Eftir að 8 hús hrundu í fyrra fór forseti landsins, Uhuru Kenyatta, fram á úttekt á öllu húsnæði landsins til þess að ganga úr skugga um að það væri í samræmi við þarlendar reglugerðir. Niðurstöður úttektarinnar leiddu í ljós að einungis 58 prósent húsnæðis uppfyllti skilyrðin. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×