Erlent

Lausanne-búar prófa borgarlaun

Sæunn Gísladóttir skrifar
Einungis lítill hluti borgarbúa mun taka þátt og verður tilraunin fjármögnuð bæði af fé borgarinnar og landsins.
Einungis lítill hluti borgarbúa mun taka þátt og verður tilraunin fjármögnuð bæði af fé borgarinnar og landsins. Fréttablaðið/Getty
Svissneska borgin Lausanne ætlar að fylgja fordæmi Utrecht í Hollandi og gera tilraun sem felst í því að veita íbúum borgarinnar svokölluð borgaralaun.

Um er að ræða skilyrðislausa grunnframfærslu sem felur í sér að allir fá greidda lágmarksupphæð frá ríkinu. Bótakerfi verða aflögð og þar með sparast vinna opinberra stofnana. Vinnutekjur leggjast ofan á borgaralaun. Ekki er gert ráð fyrir neinum skerðingum.

Borgarráð Lausanne, þar sem 150 þúsund manns búa, samþykkti með 39 atkvæðum gegn 37 að hefja tilraunina. Ekki liggja fyrir nákvæmar lýsingar á hvernig tilraunin mun fara fram, annað en að hún verði svipuð og í Utrecht. Einungis lítill hluti borgarbúa mun taka þátt og verður tilraunin fjármögnuð bæði af fé borgarinnar og landsins.

Áform eru um aðra slíka tilraun í Finnlandi. Tilraunin á að standa yfir í eitt ár og hefjast á næsta ári. Rætt er um að borgaralaunin muni nema um 800 evrum á mánuði eða sem samsvarar 112 þúsundum íslenskra króna.

Hér á landi hafa þingmenn Pírata lagt fram þingsályktunartillögu um borgaralaun eða skilyrðislausa grunnframfærslu.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 20. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×