Sport

Tvöfaldur sigur á landsliðsþjálfaranum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslandsmeistararnir í einliðaleik, Kári Gunnarsson og Margrét Jóhannsdóttir.
Íslandsmeistararnir í einliðaleik, Kári Gunnarsson og Margrét Jóhannsdóttir. mynd/margrét gunnarsdóttir/bsí

Margrét Jóhannsdóttir vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í einliðaleik á Meistaramóti Íslands í badminton sem lauk í gær. Margrét bar sigurorð af Tinnu Helgadóttur í úrslitaleiknum. Karlamegin varð Kári Gunnarsson hlutskarpastur.

„Það var ótrúlega gaman að vinna þetta loksins,“ sagði Margrét þegar Fréttablaðið heyrði í henni hljóðið í gær. Þetta var þriðja árið í röð sem hún mætir Tinnu í úrslitum og eftir tvö töp hafði hún loksins betur.

Sigurinn er líka merkilegur fyrir þær sakir að Tinna er landsliðsþjálfari í badminton. „Ég var ekkert að pæla í því,“ sagði Margrét aðspurð hvort það hefði ekkert verið skrítið að sigra landsliðsþjálfarann. „Við höfum æft saman og þetta var ekkert sem truflaði.“

Margrét sigraði Tinnu einnig í úrslitaleiknum í tvenndarleik. Margrét keppti með Daníel Thomsen en Tinna með bróður sínum Magnúsi Inga. Margrét og Daníel unnu báðar loturnar 21-19 og vörðu þar með Íslandsmeistaratitil sinn.

„Þetta var mjög góður leikur hjá okkur. Við lentum undir en rifum okkur svo í gang og tókum þetta,“ sagði Margrét um úrslitaleikinn í tvenndarleik. En hvað tekur við hjá Íslandsmeistaranum núna?

„Ég er að fara með landsliðinu á mót í Lettlandi og Litháen í júní. Ég kem svo heim í nokkra daga áður en ég fer út til Frakklands með TBR þar sem við tökum þátt í Evrópukeppni félagsliða,“ sagði Margrét  Jóhannsdóttir, nýkrýndur Íslandsmeistari, að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.