„Maður var loksins búinn að stilla sig inn á þetta. Þetta er mikið spennufall,“ segir Bjarki Már í samtali við Vísi.
Bjarki Már ræddi málin við Vísi í lok árs 2013. Hann hafði þá nýlega fengið þau skilaboð frá læknum að hann neyddist til að leggja knattspyrnuskóna á hilluna sökum álags á hjartað og leka í hjartalokunum, langt á undan áætlun.
„Alveg frá því ég man eftir mér sagðist ég ætla að verða fótboltakarl þegar ég var spurður hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór,“ sagði Bjarki í fyrrnefndu viðtali við Vísi. Hann þótti afar efnilegur, fór utan til reynslu hjá enskum liðum og var í æfingahópum yngri landsliða.
Í október 2013 varð ljóst að ekkert yrði af knattspyrnudraumi hans, engir yrðu landsleikirnir og engin yrði atvinnumennskan. Hann var þó yfirvegaður og bjartsýnn í samtali við Vísi.
„Maður verður að líta sem björtustum augum fram í tímann og vinna úr málunum eins og þeir birtast manni.“

Í dag átti hann svo að fara í hjartaaðgerðina langþráðu.
„Ég hef beðið eftir því að komast í þessa aðgerð frá því í október 2013 þegar ég fékk þær fréttir að ég þyrfi að leggja fótboltaskóna á hilluna þar sem að lekinn frá hjartalokunum var kominn yfir velsælismörk,“ segir Bjarki í opinskáinni færslu á Facebook.
Hann útskýrir að hann hafi verið á biðlista hjá Landspítalanum í nokkurn tíma og nú fyrir viku hafi kallið komið. Aðgerðin ætti eiga sér stað mánudaginn 11. apríl klukkan sjö.
„Síðasta vika hefur verið erfið. Rannsóknir og blóðprufur, viðtöl og undirbúningur, þá aðallega andlegur undirbúningur. Tilfiningarnar hafa verið miklar, eftirvænting í bland við kvíða, og hefur síðasta vika verið mikill rússíbani. Andvökunætur, skapsveiflur og kvíði hafa verið einkennandi og haft áhrif á mitt daglega líf,“ segir Bjarki Már.
Helgin hafi svo farið í það að stilla sig andlega inn á þetta verkefni, það stærsta sem hann hafi tekist á við hingað til. Hann mætti fimm mínútur fyrir sjö, skráði sig inn á dagdeild skurðlækninga og fékk föt merkt Þvottahúsi spítalanna. Við tók fyrsti verkjaskammturinn en svo leið tíminn og beðið var eftir kallinu. Klukkan 8:30 var hann enn að bíða eftir að komast í aðgerðina viðamiklu.
„Klukkan 09:00 var mér tilkynnt að ekkert pláss væri á gjörgæsludeildinni og að tækjabúnaðurinn væri af skornum skammti. ,,Aðgerðinni er því frestað“, var mér tilkynnt áður en ég var sendur heim.“

Bjarki segist vel geta ímyndað sér hversu margir, verr settir en hann, hafi lent í því að aðgerðum þeirra sé frestað. Nú hafi hann ekki hugmynd um hvenær hann komist að á ný.
„Nú er ég bara kominn aftur á biðlista,“ segir Bjarki í samtali við Vísi. Hann hafi fengið þær upplýsingar að hann þurfi að fara aftur í alla undirbúningsvinnuna í aðdraganda aðgerðarinnar, hvenær sem hún verði.
„Ég veit ekki hvernig mér mun líða fram að aðgerðinni. Ég veit hins vegar að þetta er ekki í lagi. Ég veit að það er hægt að gera eitthvað í þessum hlutum. Ég veit að ég vil ekki að þetta komi fyrir aðra í náinni framtíð.“
Þakkar hann öllum þeim læknum og hjúkrunarfræðingum sem sinntu sínu starfi af mikill fagmennsku. Ekki sé við þau að sakast. Hins vegar þurfi að endurreisa heilbrigðiskerfið og hvetur hann fólk til að skrifa undir lista Kára Stefánssonar af þeim sökum.
„Við þurfum að endurreisa heilbrigðiskerfið okkar. Það er ekkert flóknara en það.“

Bjarki hefur ekki sagt skilið við knattspyrnu þótt hann geti ekki stundað hana sjálfur. Hann hefur verið í fararbroddi í þjálfun hjá Gróttu úti á Seltjarnarnesi. Í október fór hann svo til Kólumbíu og þjálfaði götukrakka í Bogota.
„Það var mikil reynsla og ótrúlegt ævintýri. Fólk hér heima tekur hlutunum sem svo sjálfsögðum,“ segir Bjarki Már. Hann kunni enga spænsku þegar hann hélt út en eftir tvo mánuði hafði hann náð góðum tökum á henni.
Hann stefnir á flutninga til Svíþjóðar á næstu mánuðum en þeir frestast eitthvað vegna frestunar á aðgerðinni. Hann ætlar að læra íþróttafræði og þjálffræði í Svíþjóð auk þess sem hann vonast til að geta þjálfað meðfram námi sínu.
Nú er hins vegar alveg óvíst hvenær af brottför verður eftir frestunina í morgun.