Skoðun

Einstök áskorun í námi

Jón B. Stefánsson skrifar
Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins, hefur frá því snemma á árinu 2015 unnið að stofnun nýrrar námsbrautar til þriggja ára stúdentsprófs fyrir góða námsmenn, sem hefur hlotið nafnið K2 tækni- og vísindaleiðin. Skipulag brautarinnar var unnið í samstarfi við Háskólann í Reykjavík.

K2 er fyrir mjög duglega nemendur sem útskrifast úr 10. bekk grunnskóla og hafa áhuga á háskólanámi í verk- og tæknigreinum. Það er gert ráð fyrir að innrita 25 til 30 nemendur haustið 2016. K2 er ætlað að höfða til nemenda sem eru tilbúnir að stíga út fyrir boxið og takast á við krefjandi nám sem tengir saman hug og hönd. Samstarf Tækniskólans og Háskólans í Reykjavík er mikils virði í þessu samhengi.

Nafnið K2

Heiti námsbrautarinnar K2 vísar til næsthæsta fjallstinds heims sem þykir einkar erfiður viðureignar. Sem dæmi hljóta sex annir brautarinnar nöfn búða líkt og í fjallgöngu. Nemendur hefja nám í grunnbúðum, halda síðan í tæknibúðir og þaðan í vísindabúðir, frumkvöðlabúðir og forritunarbúðir þar til tindinum er náð. Nemendahópurinn verður í bekkjakerfi og er námið skipulagt sem lotunám þar sem þrjár lotur eru í hverri búð, t.d. í grunnbúðum, hver lota tekur u.þ.b. fimm vikur. Nemendur vinna svo lokaverkefni, í samstarfi við fyrirtæki úr atvinnulífinu, í ákveðnum búðum á námstímanum.

Tilgangurinn að efla tækni og vísindanám

K2 er skipulögð í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og leiðandi tæknifyrirtæki. Þannig er brautin sniðin að aðgangskröfum HR í tækni- og verkfræðideild og tölvunarfræðideild. Markmiðið með K2 er fyrst og fremst að efla tækni- og vísindanám á Íslandi með nánu samstarfi framhaldsskóla, háskóla og atvinnulífs. Samstarfið við atvinnulífið felst í því að gefa nemendum tækifæri til að takast á hendur raunveruleg verkefni undir leiðsögn sérfræðinga hjá samstarfsfyrirtækjum. HR gætir þess að innihald og gæði námsins verði í samræmi við kröfur háskólans svo að nemendur með stúdentspróf af K2 tækni- og vísindaleið muni eiga greiða leið inn í krefjandi háskólanám.

Val grunnskólanema

Almennt er viðurkennt að hallað hafi á verk- og tækninám við val grunnskólanemenda á framhaldsskólum. Tækniskólinn vill leggja sitt af mörkum til að efla nám ungmenna í verk- og tæknigreinum með því að gefa kost á öflugu og hagnýtu þriggja ára námi til stúdentsprófs.

K2 tækni- og vísindaleiðin gefur ungum nemendum kost á krefjandi námi tengdu vísindum og tækni.

Námið byggir á krefjandi viðfangsefnum, óhefðbundinni nálgun og tengingu við raunveruleg verkefni í samvinnu við atvinnulífið. Það reynir því ekki einvörðungu á hæfni nemenda til að muna, heldur á færni, sjálfstæði, sköpun og samvinnu nemenda.

Farmiðinn á tindinn

Gert er ráð fyrir að nemendur K2 hefji námið með þriggja daga þjálfunarbúðum til að kynnast innbyrðis og efla tengsl sín á milli áður en haldið er í grunnbúðirnar. Í náminu verður mikil áhersla á nám í verkefnavinnu sem reynir bæði á sjálfstæð vinnubrögð og hópavinnu þar sem nemendur glíma sameiginlega við stærri verkefni.

Við val nemenda í K2 verður horft til einkunna úr grunnskóla og er gert ráð fyrir lágmarkseinkunn B+ í íslensku, ensku og stærðfræði en einnig verður horft til annarra þátta sem styrkja einstaklinginn og gera hann hæfan til ferðalagsins á tindinn. Þeir nemendur sem sækja um þátttöku í ferðina verða teknir í viðtal áður en farmiðinn verður gefinn út.

Nánari upplýsingar um K2 leiðina er að finna á heimasíðu Tækniskólans www.tskoli.is og skulu fyrirspurnir sendar á hbb@tskoli.is.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl.








Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×