Lífið

Rannsakaði ár á Austur-landi fyrir og eftir virkjun

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Vonandi get ég eitthvað nýtt mér gögn sem ég hef verið að safna undanfarin ár til að skilgreina vatnsföll víða um land og skilja þau betur,“ segir Eydís sem er að hefja störf hjá Veiðimálastofnun í dag.
"Vonandi get ég eitthvað nýtt mér gögn sem ég hef verið að safna undanfarin ár til að skilgreina vatnsföll víða um land og skilja þau betur,“ segir Eydís sem er að hefja störf hjá Veiðimálastofnun í dag. Vísir/Vilhelm
Ég var ekkert með það í huga að vinna að doktorsverkefni þegar ég byrjaði að vakta efnasamsetningu í íslenskum ám og vötnum árið 1998. Það varð bara mitt aðalstarf hjá jarðfræðideild Háskóla Íslands,“ segir Hornfirðingurinn Eydís Salóme Eiríksdóttir sem varði nýlega doktorsritgerð við HÍ um veðrun og efnaframburð óraskaðra og miðlaðra vatnsfalla á Íslandi. Einkum studdist hún við rannsóknir sínar á vatnsföllum á Fljótsdalshéraði sem urðu fyrir áhrifum vegna Kárahnjúkavirkjunar.

  „Ég tók vatnssýni í ám á Fljótsdalshéraði í fimm ár áður en allt raskið hófst og efnagreindi þau. Sigurður Reynir Gíslason er vísindamaður hjá Jarðvísindastofnun og hann fékk mig til að keyra það verkefni áfram. Hlé varð á sýnatökum meðan á framkvæmdum stóð en svo hófust þær aftur. Einkum beindum við athyglinni að Jökulsá á Dal sem var stífluð og Lagarfljóti sem fékk alla gusuna úr Hálslóni yfir sig. Við tókum alltaf vatn á sömu stöðum bæði fyrir og eftir framkvæmdir, til að geta borið saman, og bættum útfallinu úr virkjuninni við.“

Ekki kom á óvart að áhrifin urðu mikil á báðar þessar stóru ár, að sögn Eydísar. Jökulsá hefur breyst í dragá sem dregur vatn sitt af heiðunum í kring og er bara jökulá örfáar vikur á ári þegar Hálslón fyllist og fer á yfirfall.

„Rennslið í Jökulsá á Dal er nú 1/3 að ársmeðaltali af því sem það var áður, eða um 50 rúmmetrar á sekúndu á ársgrundvelli en var um 150. Jökulvatninu sem safnast í Hálslón er veitt í Lagarfljót og í því er gríðarmikið grugg þó mest af því setjist til í lóninu, eða 85%, samkvæmt mínum útreikningum.

Svo hittast þessi tvö fallvötn aftur við árósana út við Héraðssand. Það efni sem kemst til sjávar er mjög fínt en í því eru áburðarefni sem eru góð fyrir hafið. En þangað berst enginn sandur lengur og tíminn verður að leiða í ljós hvaða áhrif það hefur á fjöruna.“

Andmælendur við doktorsvörnina voru dr. Jérôme Gaillardet, prófessor í jarðefnafræði við Institut de Physique du Globe de Paris, Frakklandi, og Suzanne Anderson, dósent við University of Colorado í Boulder, Bandaríkjunum. Eydís dáist að því hve vel þau hefðu náð að kynna sér efnið.



Nú er hún að skipta um vinnustað, kveðja Jarðefnastofnun HÍ og færa sig til Veiðimálastofnunar.

„Ég verð í einhverjum ferskvatnspælingum. Vonandi get ég eitthvað nýtt mér gögn sem ég hef verið að safna undanfarin ár til að skilgreina vatnsföll víða um land og skilja þau betur.“

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.