Viðskipti innlent

Sendinefnd til bjargar markaði í Nígeríu

Svavar Hávarðsson skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Jens Garðar Helgason á fundi SFS í gær.
Þorsteinn Már Baldvinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Jens Garðar Helgason á fundi SFS í gær. vísir/stefán
Grafalvarleg staða er uppi á mörkuðum Íslendinga í Nígeríu vegna gjaldeyrisskorts og takmarkana þarlendra stjórnvalda á notkun gjaldeyris. Þá eru blikur á lofti þar sem ekki hefur samist um veiðar úr þremur mikilvægum deilistofnum.

Þetta kemur fram í máli Jens Garðars Helgasonar, formanns Sambands fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), í nýrri ársskýrslu samtakanna.

Jens Garðar segir að SFS hafi átt gott samstarf við þau fyrirtæki sem selja afurðir sínar til Nígeríu og einnig fundað með fulltrúum utanríkisráðuneytisins, Seðlabanka Íslands og olíufélaganna.

„Farið hefur verið yfir stöðu mála og kostir í stöðunni skoðaðir, þar með taldir möguleg vöruskipti. Í undirbúningi er að íslensk sendinefnd undir forystu utanríkisráðherra fari til Nígeríu og þess verði freistað að koma aftur á viðskiptum á milli landanna.“

Jens Garðar gerir einnig að umtalsefni að hvorki gengur né rekur í viðræðum um sameiginlega fiskistofna, eða deilistofna, sem nýttir eru af Íslandi, Evrópusambandsríkjum, Noregi, Færeyjum og Rússlandi [síld]. Á það við um makríl, norsk-íslenska síld og kolmunna.

Eins og þekkt er hefur ekkert þokast í samkomulagsátt. „Staðan í strandríkjaviðræðunum er mjög alvarleg og þjónar ekki hagsmunum Íslands, né annarra veiðiríkja, til lengri tíma litið vegna augljósrar ofveiði auk þess sem orðspor þessara veiðiþjóða er í húfi sem og geta þeirra til að axla þá ábyrgð sem fylgir réttindum þeirra til nýtingar þessara sameiginlegu stofna,“ segir Jens Garðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra gerði einmitt þetta að umtalsefni í ræðu sinni á ráðstefnu SFS í gær, þar sem vaxtartækifæri íslensks atvinnulífs voru til umræðu.

„Engir samningar eru í gildi milli þjóða um síld, makríl og kolmunna eins og sakir standa. Afleiðing þessa er að það er regla, frekar en undantekning, að stofnarnir eru veiddir umfram ráðgjöf – líklega um 15 til 30 prósent,“ sagði Sigurður og bætti við að umframveiði á úthafskarfa á Reykjaneshrygg væri yfir 300 prósent. Öllum er ljóst hvað gerist ef ekki verður breyting á, sagði Sigurður Ingi og bætti við: „Þetta er í raun svartur blettur á fiskveiðistjórnun allra þessara þjóða.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×