Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl myndir: KR - Njarðvík 69-67 | KR vann í tvíframlengdum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. vísir/ernir
KR vann afar nauman sigur á Njarðvík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitarimmu liðanna í úrslitakeppni Domino's-deildar karla í kvöld en Íslandsmeistararnir þurftu tvær framlengingar til að vinna leikinn.

KR mátti sannarlega hafa fyrir sigurinn en leikurinn einkenndist af gríðarlega öflugum varnarleik, sérstaklega í síðari hálfleik, eins og sést á tölum leiksins. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 53-53 en ekki er óvenjulegt að lið skori 53 stig í einum hálfleik.

KR náði að halda Njarðvík í aðeins níu stigum í nítján mínútur í síðari hálfleik en gestirnir héldu sér inni í leiknum með góðri vörn. Þeir grænu settu svo skyndilega niður fimm stig á lokamínútunni og tryggðu sér þannig framlengingu.

Framlengingin var æsispennandi en eftir að liðin skiptust á að ná forystu en aftur, rétt eins og í lok venjulegs leiktíma, jafnaði Haukur Helgi metin þegar fáar sekúndur voru eftir.

Það var svo meira af því sama í síðari framlengingunni og í þriðja skiptið gat Njarðvík tryggt sér annað hvort sigur eða aðra framlengingu þegar lítið var eftir. En í þetta sinn lét Haukur Helga Má stela af sér boltanum og þar við sat.

Njarðvík sýndi mikla baráttu í fyrri hálfleik sem gaf liðinu sjö stiga forystu að henni lokinni. En vörn KR þvingaði marga tapaða bolta af gestunum í síðari hálfleik sem gerði herslumuninn, þó svo að það hafi staðið afar tæpt. Undanúrslitin fara því af stað með miklum látum en næsti leikur liðanna fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík á fimmtudagskvöld.

KR-ingar fengu tólf daga hvíld fyrir rimmuna eftir að hafa sópað Grindavík í 8-liða úrslitunum. Njarðvíkingar fóru hins vegar í harða rimmu við Stjörnuna sem réðst ekki fyrr en í oddaleik á fimmtudag.

Miðað við byrjunina á leiknum þá virtist það hafa hentað Njarðvík betur að halda keyrslunni áfram, slík var byrjunin. Haukur Helgi gaf tóninn með vörðu skoti strax í fyrstu sókn KR og Logi Gunnarsson setti niður þrist sem þaggaði endanlega niður í heimamönnum.

KR-ingar brögguðust þó og það var jafnvægi með liðunum fram í annan leikhluta, þó svo að heimamenn hefðu verið oftast skrefinu á undan. Liðin spiluðu öflugan varnarleik framan af sem sást best á lágu stigaskori en það hjálpaði liðunum heldur ekki að skotnýtingin var slæm fyrstu mínúturnar.

Haukur Helgi hafði hægt um sig framan af en tók svo leikinn yfir síðsutu mínútur fyrri hálfleiksins. Tveir risastórir þristar auk þess sem hann lét mikið til sín taka á báðum endum vallarins sá til þess að Njarðvíkingar héldu inn til búningsklefa með sjö stiga forystu, 39-32.

KR-ingar voru sjálfsagt fegnastir því að fá tækifæri til að ná áttum eftir þennan ótrúlega sprett og náðu þeir að herða tökin í vörninni til muna í þeim síðari. Heimamenn héldu gestunum í aðeins sex stigum og þvinguðu Njarðvík í sjö tapaða bolta í leikhlutanum.

Njarðvíkingar voru sjálfir með ágætis tök á sínum varnarleik en KR-ingar náðu að minnka muninn í eitt stig áður en fjórði leikhluti hófst. Hvorugt lið var þó komið í 50 stig eftir þrjá leikhluta, staðan að honum loknum var 44-45.

Ástandið skánaði ekki undir lokin fyrir gestina. Aðeins tvö stig af vítalínunni fyrstu mínútur leikhlutans og KR, með Craion eins og tröll í teignum, náði frumkvæðinu á nýjan leik.

Hvorugt lið skoraði varla körfu úr opnum leik síðustu mínúturnar, sem var reyndar alveg ótrúlegt að sjá. Það er eitt að spila öfluga vörn en leikmenn hittu ekki einu sinni úr færum sem þeir náðu að skapa sér.

Það er að segja, þar til að Oddur og Haukur Helgi settu niður fimm stig til að jafna leikinn. KR fékk svo boltann þegar tíu sekúndur voru eftir en náði ekki að skora og þurfti því að framlengja en sem fyrr segir hafði KR þar betur eftir afar jafna baráttu.

KR-Njarðvík 69-67 (18-15, 14-24, 12-6, 9-8, 9-9, 7-5)

KR: Michael Craion 27/16 fráköst/3 varin skot, Helgi Már Magnússon 13/7 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 7, Brynjar Þór Björnsson 7/8 fráköst, Pavel Ermolinskij 5/9 fráköst/6 stoðsendingar/3 varin skot, Björn Kristjánsson 5/4 fráköst, Darri Hilmarsson 5/8 fráköst.

Njarðvík: Haukur Helgi Pálsson 26/15 fráköst/4 varin skot, Jeremy Martez Atkinson 20/24 fráköst/6 stoðsendingar, Maciej Stanislav Baginski 7, Logi  Gunnarsson 6, Oddur Rúnar Kristjánsson 6, Hjörtur Hrafn Einarsson 2.

Atkinson: Sóknarvilla fyrir það sem manni er kennt að gera

Bandaríkjamaðurinn Jeremy Atkinson var svekktur eftir tap gegn KR í DHL-höllinni í kvöld. Hann fékk dæmda á sig afdrifaríku sóknarvillu í lok síðari framlengingar leiksins sem hafði mikið að segja um úrslit leiksins.

„Þetta var gott. Menn voru að spila góðan körfubolta,“ sagði Atkinson eftir leikinn en vildi greinilega lítið segja um dóminn umdeilda.

„Ég get ekki sagt of mikið um hann. Við eigum fjóra leiki eftir í seríunni og það verður að halda þeim góðum. En ég veit ekki hvað væri hægt að segja, það voru nokkrar ákvarðanir teknar í lokin sem eru umdeildar.“

Hann segir að Njarðvíkingar hafi þó ekki látið dómgæsluna á sig fá og spilað í gegnum það. Atkinson hrósaði Hauki sérstaklega.

„Hann setti niður ótrúlegt skot sem kom okkur í síðari framlenginguna,“ sagði Atkinson og hristi svo hausinn.

„Síðan kom síðasta sóknin. Ég er með tvo menn í mér og fæ dæmda á mig sóknarvillu fyrir að gera það sem manni var kennt að gera,“ sagði hann.

„En svona er þetta. Stuðningsmennirnir fengu tíu aukamínútur af góðum körfubolta. Og nú þurfum við bara að fara heim og vinna. Einhverra hluta vegna hefur okkur gengið illa að vinna í ljónagryfjunni en nú þurfum við bara að vinna.“

Á meðan Njarðvíkingar þurftu að fara í oddaleik til að komast í undanúrslitin biðu KR-ingar lengi eftir þessum leik í kvöld.

„Við héldum að við yrðum þreyttir í kvöld en svo var ekki. Við erum alls ekki búnir og höfum ekki sagt okkar síðasta.“

Brynjar: Fengum engar skýringar frá KKÍ

Brynjar Þór Björnsson, bakvörður í KR, segir að það hafi verið furðuleg ákvörðun að láta lið sitt bíða aukadag eftir fyrsta leik sínum í undanúrslitum Domino's-deildar karla.

KR mætti Njarðvík í kvöld og vann nauman sigur í tvíframlengdum leik. Njarðvík þurfti oddaleik í sinni rimmu í 8-liða úrslitum til að fara áfram og var að spila á fimmtudaginn. En KR hafði beðið eftir leiknum í kvöld í tólf daga.

„Þetta var bara glataður leikur. Það verður að segjast eins og er,“ sagði KR-ingurinn Brynjar Þór eftir nauman sigur KR, 69-67.

Hann, eins og svo margir KR-ingar, fann ekki fjöl sína í sóknarleiknum og skoraði einungis sjö stig í leiknum.

„Við vorum hræðilega lélegir. Við áttum að vera löngu búnir að klára þetta en þessi tólf daga pása fór í lappirnar okkar og við vorum þungir.“

„Það er erfitt að bíða í tólf daga. Þeir fengu reyndar aukadag til að jafna sig eftir sína rimmu sem hjálpaði þeim. Maður fann í byrjun leiks að maður var ekki tilbúinn í þetta enda byrjuðu Njarðvíkingar þetta af þvílíkum krafti.“

Hann segir að KR-ingar hafi ávallt reiknað með því að fá fyrri leikdaginn í undanúrslitunum, ekki þann síðari eins og raunin varð.

„Deildarmeistararnir hafa alltaf verið á undan og fengið að ráða. En af einhverjum ótrúlegum ástæðum þá vorum við færðir um einn dag og menn voru ekki sáttir við það. Við fengum engar skýringar og er þetta skrýtið mál.“

„Það var orðið afar erfitt að bíða.“

Hann segir að þrátt fyrir lágt stigaskor hafi sóknarleikur KR verið góður í kvöld.

„Við vorum að fá opin skot, hvað eftir annað, og allt það sem við vildum. En við vorum ekki að hitta.“

„Ef við hittum bara úr þessum skotum sem við vorum að fá í dag þá skorum við meira en 69 stig eftir tvær framlengingar. Það er fullvíst.“

Finnur Freyr: Óöruggur fyrir leikinn

Finnur Freyr Stefánsson var ánægður með sigur KR-inga í kvöld.

„Við þurftum að hafa fyrir þessu. Njarðvíkingar mættu flottir til leiks og við vorum á hælunum í vörninni í fyrri hálfleik,“ sagði Finnur Freyr.

„En það sem skiptir máli er sigurinn og nú vantar okkur tvo í viðbót til að slá þá út.“

„Við fengum of mörg tækifæri til að klára þetta í venjulegum leiktíma en gáfum þeim alltaf tækifæri til að koma til baka,“ sagði þjálfarinn.

Finnur segir að það hafi verið erfitt að koma inn í leikinn í kvöld eftir svo langa hvíld en 12 dagar eru síðan að KR-ingar spiluðu síðast.

„Maður var óöruggari fyrir þessa leiki en fyrir leikina gegn Grindavík. En eftir því sem leið á leikinn gekk okkur betur að komast inn í hann og svekkjandi að hafa ekki sett niður skotin okkar og gert þetta aðeins betur í sókninni.“

Friðrik Ingi: Áfram gakk

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkur, hrósaði báðum liðum fyrir góðan varnarleik en sá eftir vannýttum tækifærum í sóknarleik sinna manna, sérstaklega í síðari hálfleik.

„Heilt yfir spiluðum við góðan varnarleik og við vorum inni í leiknum út af því. En við hittum ekki nægilega vel í seinni hálfleik og kannski hefði þetta farið öðruvísi ef eitthvað af þessum skotum hefðu farið niður.“

„Bæði lið spiluðu góða vörn í kvöld. En sigurinn gat dottið hvoru megin sem var og þetta fór svona í kvöld.“

Hann gerir engar athugasemdir við dómgæsluna undir lokin. „Sjálfsagt var þetta sóknarvilla á Jeremy Atkinson en mér fannst rétt áður en það gerðist eitthvað gert á hans hlut. En svona er leikurinn bara og örugglega hægt að týna margt til eftir svona leik. Leikurinn tapaðist ekki á þessu.“

Friðrik Ingi hélt ekki langa ræðu eftir leik og hefur ekki áhyggjur af sínum mönnum eftir þessa frammistöðu í kvöld.

„Það er bara næsta verkefni og næsti leikur. Það koma alltaf skot sem klikka og leikir sem tapast. Við bara reynum að vera sterkir í hausnum og um það snúast svona seríur. Það er stutt á milli leikja og þýðir ekkert að vera of hátt uppi eða of langt niðri. Það er bara áfram gakk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×